Jólaerindi orkumálastjóra 2019

Ágætu starfsmenn Orkustofnunar og aðrir gestir

Nú lýsa hin ýmsu ríki því yfir hvernig og hvenær þau ætla að ná kolefnishlutleysi. Í sögubók Ólafs Hanssonar sem við lásum í menntaskóla var farið háðulegum orðum um merkantílismann eða kaupauðgistefnuna sem þessi hagstjórnarstefna var kölluð i íslenskri þýðingu.

Nú virðist þessi stefna þó í æ meira mæli vera að ryðja sér rúms í alþjóðaviðskiptum og í samskiptum þjóða. Þetta hefur leitt til einhvers konar einangrunarhyggju þar sem lönd reyna að auka útflutning sinn en draga úr viðskiptum við þá sem ætla sér að gera sambærileg viðskipti í hina áttina. Það ber svolítinn keim af þessu þegar þjóðir einhenda sér í að draga úr losun kolefniskvóta innan sinna landamæra til þess að geta uppfyllt hin þjóðlegu markmið, en láta sig minna varða hvaða áhrif þær aðgerðir sem gripið er til hafa á losun á heimsvísu.

Vandinn er aftur að það skiptir litlu máli hversu mikið við Íslendingar losum af kolefni. Vandamál okkar vegna loftslagsbreytinga verða ekki minni ef árangur í samdrætti losunar næst ekki á heimsvísu. Möguleikar ríkja til þess að vinna að minnkun losunar og bindingar kolefnis eru ekki endilega mestir innan eigin landamæra. Þetta á svo sannarlega við um Ísland.

Reynsla okkar af nýtingu jarðvarma til húshitunar og síðar meir af jarðvarmavirkjunum til raforkunýtingar er miklvægur þekkingarforði sem hefur nýst vel til þess að koma af stað jarðhitavæðingu í hinum kaldari hluta Kínaveldis og Austur-Evrópu og jarðhitavirkjunum á Filipseyjum, í Indónesíu, Kenýja og Mið-Ameríku sem samanlagt eru að skila margfalt meiri vistvænni orku til heimsbyggðarinnar en þeirri sem okkar eigin framleiðsla gefur.

Þarna hafa gegnt lykilhlutverki Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna, sem hefur starfað innan Orkustofnunar samfleytt í meira en 40 ár og er fjármagnaður af Utanríkisráðuneytinu sem hluti af þróunaraðstoð okkar Íslendinga, sem og aðrar stofnanir og fyrirtæki eins og ÍSOR – Íslenskar orkurannsóknir, íslensk orkufyrirtæki, verkfræðistofur, aðrir ráðgjafar, fjármálastofnanir og svona mætti lengi telja. Það er almennt viðurkennt að ein meginforsenda útflutnings á þekkingu og verkefnum og vörum er öflugur heimamarkaður sem gefur tækifæri til að takast á við nýjar áskoranir og þróa áfram þekkingu og reynslu í nærumhverfinu.

Í öðrum löndum eru slíkir öflugir vaxtarsprotar atvinnulífsins, sem falla vel að markmiðum um sjálfbæra samfélagsþróun á heimsvísu, í hávegum hafðir og sérstök rækt lögð við að halda við öflugum heimamarkaði og stutt við rannsóknir og innlenda þróun. Hér er okkar eigið auðlindaráðuneyti í annarri vegferð.

Öll starfsemi þar virðist mér ganga út á að reisa margfaldar gaddavírsgirðingar í kringum framtíðarkosti okkar til virkjunar jarðhita og vatnsfalla og koma jafnvel í veg fyrir áframhaldandi rannsóknir á auðlindunum. Allt er þetta gert undir sakleysislegum og auðseljanlegum formerkjum, eins og stofnun hálendisþjóðgarðs og og friðlýsingar náttúrusvæða, en hins vegar vandlega sneitt hjá því að meta áhrif þessa á orkuöryggi, atvinnulíf, hagvaxtarmöguleika okkar til lengri tíma, framlag okkar til loftslagsvænnar raforkuvinnslu og svona mætti lengi telja.

Verkefnaskortur innanlands blasir við okkar helstu rannsóknastofnunum og fyrirtækjum á þessu sviði. Þekking og reynsla sem byggst hefur upp á undanförnum áratugum brotnar niður í sundurlausan eyjarekstur og frumkvæði okkar og orðspor á alþjóðavettvangi fjarar út. Í stað þess ættum við, með því að byggja á sterkum grunni áframhaldandi verkefna og þróunar, blása till nýrrar og öflugri sóknar á alþjóðavettvangi.

Burðarhugmyndin gæti verið að alþjóðlegir sjóðir sem fjármagnaðir eru með gjöldum vegna kolefnislosunar stofni verkefni á sama hátt og Uppbyggingarsjóður Evrópu gerir. Lönd, landsvæði eða borgir sem byggja raforkuframleiðslu sína á kolaorku geta sótt um að gera orkuvinnslu og orkunýtingu sína að umbreytingaverkefni. Þá eru fyrst framkvæmdar rannsóknir þar sem allar forsendur umbreytinga og orkuskipta eru greindar með sama hætti. Að því loknu geta fyrirtæki eða fyrirtækjasamsteypur á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga boðið í að taka yfir kolaorkuverið með ákveðinni milligjöf sem ákveðin er út frá því hvernig þau meta bilið á milli þeirra rekstrartekna sem hægt er að afla með orkusölu eftir umbreytinguna og hins vegar rekstrarkostnaðar og fjármagnskostnaðar eftir að umbreytingin hefur gengið í gegn. Slík milligjöf gæti verið í formi beins fjárframlags, eiginfjár í nýju fyrirtæki, lána á lágum vöxtum eða víkjandi lána sem hægt væri að sækja um niðurfellingu á eftir ákveðnum reglum, t.d. ef forsendur um auðlindir, markað o. fl. breyttust verulega frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir.

Hvað hefðum við Íslendingar fram að færa í slíkum verkefnum?

Hér þurfum við að hafa í huga að markmiðið er ekki fyrst og fremst að draga úr kolabrennslu heldur að draga úr kolefnislosun út í andrúmsloftið. Hluti lausnarinnar getur því falist í að safna og farga kolefni eða endurnýta það með

einhverjum hætti, t.d. sem burðarefni í tilbúnu eldsneyti eða sem einhvers konar byggingarefni í efnaiðnaði.

Í fyrsta lagi er það jarðhitanýtningin. Víða í heiminum eru rekin kolaorkuver á svæðum þar sem jarðhiti er til staðar sem nýta má til hitunar og kælingar húsnæðis og til raforkuframleiðslu. Þar sem slíkir möguleikar eru fyrir hendi eru þeir sennilega alltaf hagkvæmasti möguleikinn til orkuskipta, svo langt sem þeir ná.

Þróun jarðhitanýtingar í Kína, Hollandi og nú síðast boranir í Finnlandi segja okkur að nýtanlegan jarðhita er oft að finna þar sem hvorki ummerki á yfirborði jarðar né sögulegar heimildir gefa til kynna að slíkar lindir séu fyrir hendi. Svo er eins og menn séu steinblindir á umhverfi sitt. Í Singapúr er jarðhitalind með yfir 100 gráðu sjálfrennandi vatni sem japanskir hermenn notuðu til baða í seinni heimsstyrjöldinni með ágætum árangri. Yfirvöld orkumála þar í landi eru hins vegar óþreytandi við að tjá áhugasömum gestum sínum að engar slíkar lindir sé að finna í Singapúr.

Í öðru lagi eru það stærri og minni vatnsorkuver. Vatnsorkan er víða vannýtt, sérstaklega í löndum sem hafa búið við mikla fátækt. Einnig vex mikilvægi hennar þegar raforkuframleiðsla, sem byggir að verulegu leyti á sólarorku og vindi, er breytileg eftir veðurfari og vindum. Vatnsorka með uppistöðulónum er oftast hagkvæmasti kosturinn til þess að miðla raforku milli tímabila eftir því sem samspil framboðs og eftirspurnar breytist.

Önnur leið til þess að miðla umframorku bæði í tíma og rúmi er að breyta henni í efnaorku sem aftur má leysa úr læðingi við brennslu eða í efnarafölum. Það sem menn hafa helst horft til í því sambandi er að nota umframrafmagn til rafgreiningar, þ.e. að umbreyta vatni í vetni annars vegar og súrefni hins vegar. Það dásamlega við þessa tækni er, eins og flestir þekkja, að þegar vetnið er nýtt sem eldsneyti í efnarafölum eða því er brennt, þá renna þessi frumefni saman á ný og útblásturinn verður hrein vatnsgufa.

Vondu fréttirnar eru hins vegar þær að búnaður til rafgreiningar, þjöppunar og geymslu er dýr, og efnarafalar einnig. Vetnisbílar eiga þó að geta haft mun meiri drægni en rafbílar og því horfa menn nú til þess að nota vetni t.d. fyrir stærri flutningabíla og lestir. Önnur leið er að nýta vetnið sem orkugjafa í flóknari efnasamböndum, eins og t.d. metangasi eða tréspíra, eða metanóli sem er meira sambærilegt við venjulegt eldsneyti í flutningi geymslu og dreifingu.

Verksmiðja Carbon Recycling í Svartsengi er merkilegt tilraunaverkefni en framleiðsluferlið þar endurnýtir kolefnisstraum frá virkjun og vetni sem unnið er með rafgreiningu til þess að búa til metanól sem aftur má nýta til brennslu.

Árið 2008 var ég á fundi í Washington þar sem George W. Bush þáverandi forseti Bandaríkjanna hélt ræðu og lýsti því yfir að vandamál vegna losunar kolefnis væru best leyst með því að stórauka notkun kjarnorku. Eitthvað hefur reynst erfitt að reikna barn í þá tillögu því nokkrum mánuðum seinna kom ný yfirlýsing um að betri lausn væri að fanga kolefnið úr útblæstri orkuvera og koma því haganlega fyrir djúpt í jörð eða í undirdjúpum sjávar. Sennilega hafa bandarískir kolagerðarmenn tekið illa hinni fyrri tillögu en nú gátu þeir aftur tekið gleði sína.

Við höfum síðan staðið í svipaðri stöðu varðandi möguleika þessarar lausnar. Kostnaðurinn er metinn á um 90 USD á tonnið á meðan verð á losunarheimildum hefur lengst af í Evrópu verið lægra en 10 € á tonnið. Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til þess að nýta þessa lausn en fyrirhöfn og kostnaður hafa oftast borið þá viðleitni ofurliði.

Nú sjáum við hilla undir það að verð á heimildum muni hækka nokkuð. Losun á brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun var, eftir að virkjunin komst í fullan gang, orðin of mikil til þess að við það væri hægt að búa. Er skemmst að segja frá því að tillögur vísindamanna um að blanda brennisteinsvetni og síðan einnig koltvísýringi í niðurdælingarstraum virkjunarinnar og láta hann hvarfast við bergtegundina basalt djúpt í jörðu. Þær tilraunir sem hafa verið gerðar í heiðinni hafa sýnt að þetta ferli endar með því að kolefnið binst í kristalla úr kalsíti og brennisteinsvetnið myndar glópagull eða pýrít, en þessar steintegundir munu vera stöðugar til mjög langs tíma, eða árþúsunda.

Kostnaðurinn við förgun kolefnis með þessum hætti hefur verið metinn á um 30 USD á tonnið, eða þrisvar sinnum lægri heldur en samþjöppun og niðurdæling koltvísýrings í vökvaformi. Um virkni þessarar tækni í öðrum bergtegundum en basalti er enn óvíst, en hins vegar er fjöldi kolaorkuvera í heiminum enn mikill og því ættu Íslendingar að geta valið sér verkefni þar sem lausnir þeirra henta best.

Um aldamótin átti vatnsorkuiðnaðurinn við mikið andstreymi að stríða vegna virkjanverkefna sem fólu í sér gerð stórra uppistöðulóna. Er óhætt að segja að mönnum hafi verið við það mjög mislagðar hendur og að samskiptum við nærsamfélgið hafi verið mjög ábótavant og þá sérstaklega m.t.t. upplýsingagjafar og síðan réttinda þeirra sem þurftu að flytja búferlum eða misstu að hluta eða öllu leyti lífsviðurværi sitt vegna þessarra framkvæmda.

Í framhaldi af því settu alþjóðasamtök vatnsvirkjana IHA af stað vinnu við gerð sjálfbærnilykils fyrir vatnsaflsvirkjanir sem átti að tryggja alhliða utanumhald um vatnsaflsverkefni út frá sjónarmiðum sjálfbærni, þ.e. áhrif á umhverfi og náttúru, samfélagsleg áhrif og efnahagslegar forsendur.

Leitað var samstarfs við óháð alþjóðasamtök á sviði náttúruverndar, mannréttinda og sjórnsýsluumbóta, fjármálasamtök og síðan voru með fulltrúar þriggja þjóðlanda, þ.e. Noregs, Íslands og Þýskalands, sem einnig styrktu starfsemina með fjárframlögum. Árið 2011 var lokið við gerð sjálfbærnilykils fyrir skipulagningu, byggingu og rekstur vatnsaflsvirkjana.

Á vegum IHA er rekin sérstök eining sem sér um menntun og vottun úttektarmanna. Á vegum Landsvirkjunar hefur farið fram úttekt á Kárahnjúkvirkjun sem er aðgengileg á heimasíðu fyrirtækisins. Lykillinn nýtist að sjálfsögðu einnig sem leiðbeiningar fyrir þá sem eru að hefja nýtt virkjanaferli til þess að geta staðið rétt að upplýsingagjöf og samskiptum við hagaðila frá upphafi verkefnisins.

Okkur sem komum að þessu máli fyrir Íslands hönd var snemma ljóst, að staðallinn gæti að verulegu leyti einnig nýst fyrir jarðvarmavirkjanir. Orkustofnun, ásamt HS-Orku, Landsvirkjun, OR og með aðkomu Umhverfisstofnunar, fór í það verkefni að gera nýja útgáfu af lyklinum þannig að hægt væri að leggja mat á jarðhitavirkjanir með sama hætti. Því verki er nú að mestu lokið og hefur lykillinn verið prófaður í tveimur íslenskum jarðvarmavirkjunum.

Í raun er ekkert sem kemur í veg fyrir að lykillinn, eða staðallinn, verði þróaður áfram að t.d. umbreytingu kolaorkuvera yfir í endurnýjanlega orku. Vandamálin eru ekki eingöngu umhverfislegs og tæknilegs eðlis heldur getur líka verið um víðtæk áhrif á nærsamfélagið að ræða, t.d. uppsetningu vindorkugarða, landnotkun fyrir sólarorku og framleiðslu á líforku, námuverkamenn sem missa vinnuna en einnig ný störf sem skapast o.s.fr.

Fjárfestar og fjármálastofnanir sem koma að slíkum verkefnum hafa að sjálfsögðu mikinn áhuga á að verkefnin leiði til jákvæðrar samfélagsþróunar þannig að þau öðlist almennan stuðning og að stjórnsýsla verkefnanna sé trygg og leiði til eðlilegrar samkeppni og gagnsæi í fjármálum, svo dæmi séu tekin.

Orkustofnun hefur í samstarfi við Utanríkisráðuneytið annast undirbúning jarðhitaverkefna í sérstökum stuðningslöndum Evrópusambandsins þar sem Uppbyggingarsjóður Evrópu hefur komið inn og brúað bilið milli þess sem fjárfestar telja sig

geta fjármagnað með framtíðarviðskiptum og raunverulegs kostnaðar við verkefnið. Nýtt glæsilegt verkefni er jarðhitavirkjun á Azoreyjum þar sem jarðvarmi er nú nýttur til þess að framleiða raforku sem áður var famleidd með jarðefnaeldsneyti.

Orkusjóður hefur líka skapað öðrum þjóðum fyrirmynd um það hvernig hægt er að dreifa áhættunni vegna leitar og borana eftir heitu vatni þannig að minni samfélög geti ráðið við áhættuna af slíkri fjárfestingu þegar óvissa ríkir um útkomuna.

Menntun og þjálfun starfsmanna frá viðkomandi svæðum er lykilforsenda fyrir því að hægt sé að byggja upp ný og breytt orkukerfi. Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna, sem er fjármgnaður af utanríkisráðuneytinu og vistaður hjá Orkustofnun, hefur gefið af sér nemendur sem hafa orðið brautryðjendur í nýtingu jarðhita í sínu heimalandi, en þegar veruleg uppbygging á sér stað þá vantar mun fleiri hendur til þess að geta sinnt hratt vaxandi þörf fyrir þjálfað starfsfólk. Kenýa, sem byggir nú hratt upp raforkuframleiðslu sína hefur greitt að fullu námskostnað fyrir nemendur umfram þá sem höfðu hlotið styrk frá skólanum.

Um 90 jarðhitasérfræðingar frá Kína hafa þegar verið menntaðir hjá JHS í gegnum árin. Með núverandi áætlunum um uppbyggingu jarðhita í Kína gera menn ráð fyrir að það þurfi að mennta um 150 sérfræðinga á ári næstu árin. Á þessu ári var stofnaður skóli í Beijing með íslenska skólann sem fyrirmynd en sniðinn að þörfum Kínverja og áherslum þeirra á að nýta lághitalindir, sem þeir eiga mikið af, fyrir hitaveitur. Fyrsti árgangurinn hóf nám um miðjan nóvember með 40 nemendum og að kennslunni hafa komið 11 íslenskir sérfræðingar og fleiri hafa komið að skipulagi og undirbúningi.

Alþjóðlegt samstarf – alþjóðlegir sjóðir

Þótt okkur finnist árangur af samningaviðræðum ríkja heimsins í Madríd á dögunum helst til rýr breytir það því ekki að flest lönd í hinum vestræna heimi hafa sett sér markmið um að þróa og auka hlut grænna verkefna í atvinnulífi sínu. Þá hefur gjarnan verið litið til mögulegrar iðnaðarframleiðslu og verkefnaútflutnings tengdum endurnýjanlegri orkuvinnslu og orkuskiptum.

Norðurlöndin hafa nú uppi mikil áform um að efla samstarf sitt á sviði orkumála og innan Evrópska efnahagssvæðisins eru áform um að efla samstarf um hrein orkuskipti, eða clean energy transition. Sjóður sem fjármagnaður er með kolefnisgjöldum getur orðið mjög stór og æ fleiri alþjóðlegir fjárfestingarsjóðir setja sér háleit markmið í umhverfis og loftslagsmálum. Með frumkvæði og þátttöku í fjölþjóðlegu samstarfi á að vera hægt að skilgreina verkefni af áður óþekktri stærðargráðu og með mælanlegum áhrifum á þróun heimsins í loftslagsmálum.

Orkuvandamál Íslendinga

Íslendingar vissu það ef til vill ekki fyrir, en nú vita þeir hvað rauð viðvörun þýðir. Víðtækur og viðvarandi veðurofsi býður ekki upp á ferðir á milli staða meðan hann gengur yfir og gera má ráð fyrir skemmdum og áföllum í innviðum sem valda verulegum erfiðleikum í rekstri heimila, fyrirtækja og stofnana og geta stefnt öryggi okkar sem einstaklinga í hættu með ýmsu móti.

Þegar upp er staðið sitjum við uppi með ótal dæmi um heimili sem hafa verið án símasambands, einangruð og rafmagnslaus, kýr sem standa ómjólkaðar, heilu bæjarfélögin án rafmagns, línur sem hafa slitnað, staura sem hafa brotnað, spenni- og tengivirki sem hefur slegið út vegna ísingar og seltu og svona mætti lengi telja. Við megum heldur ekki gleyma því að í svona ástandi eru vinnuflokkar og björgunarsveitir sendar út til þess að sinna nauðsynlegum björgunar- og viðgerðarstörfum við mjög krefjandi og hættulegar aðstæður.

Það er eðlilegt að menn spyrji sig hvort hægt sé að verjast svona áföllum. Eftir slíka álagsprófun getum við ályktað um það hvernig öðruvísi og betur hefði mátt standa að málum og hvað hefði þurft til til þess að koma í veg fyrir rafmagnsleysi á mismunandi stöðum. Fyrsta svarið er að almenn styrking flutningskerfisins gengur alltof hægt. Áfangar sem hafa verið fjármagnaðir og á áætlun í langan tíma hafa dregist úr hömlu og lent í kvörn langvinnra kærumála og flækjustigið virðist vaxa með hverju ári.

Þegar brúðhjón í útlendum bíómyndum ganga upp að altarinu þá biður klerkur viðstadda sem sjá meinbugi á hjónabandinu að gefa sig fram eða hafa sig ekki í frammi héðan eftir. Ef við værum með sama réttarfar og við leyfisveitingar fyrir nýjum raforkumannvirkjum myndi afbrýðissamur þriðji aðili kæra hjónavígsluna til kærunefndar hjónabandsmála á grundvelli þess að ekki hafi farið fram nógu vönduð valkostagreining áður en brúðurin valdi sér mannsefni. Átján mánuðum síðan kæmi síðan úrskurður um að útgefið hjónavígsluvottorð væri fellt úr gildi og hjónunum gert að flytja sundur og byrja tilhugalífið upp á nýtt. Þá væri reyndar eitt barn komið í heiminn og annað á leiðinni.

Í annan stað er hægt að verja tengivirki betur fyrir ísingu og seltu en nú er með einhvers konar yfirbyggingum.

Í þriðja lagi er líklegt að eftir því sem stærri hluti dreifikerfisins á lægri spennu sé lagður í jörð, þeim mun minni líkur verði á truflunum í dreifikerfinu.

Spurningin um varaaflstöðvar er hins vegar erfiðari. Það er ljóst að þar sem afhendingarstaður raforkunnar er tengdur í eina átt og með loftlínu þá eru líkur á truflunum alltaf talsverðar. Með jarðstreng minnka líkurnar, en á móti kemur að viðgerðartími á jarðstreng getur verið talsverður ef hann af einhverjum ástæðum bilar. Við þær aðstæður er þess vegna alltaf þörf á varaafli. Hins vegar, ef afhendingarstaðurinn er tengdur í tvær áttir, geta líkur á rafmagnsleysi orðið mjög litlar, hugsanlega á nokkurra áratuga fresti.

Rekstur varaaflstöðva krefst töluverðrar umsjónar, t.d. að stöðin sé ræst og prófuð og að eldsneytisbirgðir séu endurnýjaðar reglulega. Ef við ætlum að tryggja okkur gegn atburðum sem gætu gerst með einhverra áratuga millibili gæti þeim fjármunum sem fara í byggingu og rekstur slíkra stöðva hugsanlega verið betur varið.

Ef til vill gæti náðst betra öryggi með því að vera með minni varaaflstöðvar á viðkvæmum stöðum eins og sjúkrastofnunum, dælustöðvum hitaveitu og þ.h. Miðað við núverandi þróun á verði á stærri rafhlöðum gætu þær innan fárra ára orðið raunhæfur valkostur fyrir varaafl, ásamt færanlegum stöðvum sem kæmu inn við lengra rafmagnsleysi. Með snjallbúnaði fyrir einstaka notendur væri og hægt að takmarka vissa notkunarþætti og draga verulega úr raforkunotkun tímabundið og þar með þörfinni fyrir varaafli.

Þáttur einstaklingsins og ábyrgð má þó ekki gleymast í þessu samhengi. Þeir sem búa afskekkt og þar sem hætta er á algerri einangrun við svona veðurskilyrði verða að hafa nauðsynlegan viðbúnað til þess að geta haft ljós og hita og sinnt matseld þótt allt samband rofni, langbylgjuútvarp með rafhlöðum til þess að geta fylgst með fréttum og hugsanlega gera ráðstafanir til þess að þeir sem gætu þurft á bráðri læknishjálp að halda flytji sig í þéttbýlið þegar rauð viðvörun er í gildi á svæðinu.

Þeir sem hafa á undanförnum árum barist harðast gegn nýjum flutningslínum í raforkukerfinu og lagt stein í götu leyfisveitinga og framkvæmda hvar sem tækifæri gefast, eiga nú í vök að verjast þegar menn sjá afleiðingar mikilla veikleika í flutnings- og dreifikerfinu. Þeir reyna nú að setja þetta í þann búning að þeir séu ekki andsnúnir línum sem þjóna hinum almenna hluta kerfisins heldur einungis framkvæmdum sem þjóna stóriðju.

Í umsögn Landverndar um kerfisáætlun Landsnets segir: „Landsnet sem fyrirtæki í eigu almennings ætti að sjá sóma sinn í því að taka þetta skýrt fram í allri umfjöllun um afhendingaröryggi og ætti alls ekki að hafa frumkvæði að hræðsluáróðri eins og fyrirtækið stóð fyrir í tengslum við ársfund sinn þar sem talað var um skert þjóðaröryggi. Ef dregið hefur úr þjóðaröryggi vegna lítillar flutningsgetu raforkukerfisins þarf að tengja það beint við orsakavaldinn: stóriðju.“

Hér er grundvallar misskilningur á ferðinni. Allmenna kerfið og stóriðjan samnýta meginflutningskerfið. Með auknu raforkumagni sem flytja þarf um línurnar aukast tekjur og möguleikar til þess að efla og styrkja kerfið. Með hærra spennustigi aukum við verulega flutningsgetu línunnar og minnkum töp, þannig að kostnaður á flutta einingu minnkar fyrir alla. Það þýðir líka að hægt er að flytja orku milli virkjanasvæða þegar áföll og truflanir verða í raforkuframleiðslu á einu svæði. Byggðarlögin losna úr spennitreyju takmarkaðrar flutningsgetu og atvinnulíf getur haldið áfram að byggjast upp með eðlilegum hætti. Sterkara atvinnulíf og betri afkoma er svo grundvöllur að fjármögnun sterkari innviða. Sterkari stauravirki og línur sem liggja hærra yfir jörðu minnka líkur á áföllum vegna veðurs, þótt vissulega sé aldrei hægt að útiloka þau.

Kerfið stendur einnig sterkara við að taka á móti stærri áföllum án þess að komi til útleysinga. Það má velta því fyrir sér hvort Húsvíkingar hefðu ekki verið í svipaðri stöðu og Dalvíkingar eftir óveðrið í desember ef ýmsum sjálfskipuðum verndurum náttúrunnar hefði tekist ætlunarverk sitt að tefja línuna frá Þeistareykjum að Bakka í nokkur ár í viðbót.

Þetta ár hefur fremur öðru snúist um afgreiðslu þriðja orkupakkans. Allt sem hægt er að segja um það mál hefur þegar verið sagt, en verkefni okkar við að uppfylla þær skyldur sem þar er kveðið á um verða fyrirferðarmikil á komandi ári. Eitt hefur þó vakið athygli mína öðru fremur og það er að regluverkið gerir ráð fyrir að þjóðríkin jafni aðstöðumun þeirra notenda sem búa á útjöðrum raforkukerfisins, eða í dreifbýlinu eins og við köllum það. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að við setjum okkur önnur efnahagsleg viðmið fyrir framvæmdir við öflugri tengingar, varaafl o.fl. fyrir byggðarlög sem nú búa við skert raforkuöryggi.

Þótt mér hafi að þessu sinni orðið tíðrætt um verkefni okkar sem tengjast loftslagsmálum og öryggismálum í raforkukerfinu má ekki gleyma því að Orkustofnun sinnir afar margbreytilegum verkefnum og leyfisveitingum og eftirliti, sem snerta mörg svið þjóðlífsins: Nýting orkulindanna, raforkueftirlit, efnisnámur á hafsbotni og á landi, neysluvatn, framkvæmdir í ám og vötnum, orkusparnaður, orkunýting, orkuskipti, endurgreiðslur og styrkir vegna orkusparnaðar og orkuskipta, greining og undirbúningur nýrra orkukosta fyrir Rammaáætlun, smávirkjanir, eldsneytismál, ráðgjöf við stjórnvöld vegna vinnslu nýrra laga og reglugerða, orkutölfræði og orkuspár, öflun og varðveisla gagna, landupplýsingakerfi til þess að auka aðgengi að upplýsingum, þróun rafrænnar og einfaldari stjórnsýslu, þátttaka í norrænu og alþjóðlegu samstarfi og síðast en ekki síst rekstur Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna og svona mætti lengi telja.

Um áramótin verður sú breyting á, að háskólastofnanirnar fjórar, sem reknar hafa verið í samstarfi við Háskóla Sameinuðu þjóðanna, verða reknar í samstarfi við UNESCO og undir sameiginlegri regnhlíf á vegum UTN sem nefnist Gró. Þetta mun hafa einhverjar stjórnunarlegar breytingar í för með sér, en þó er gert ráð fyrir að verkefni og rekstur jarðhitaskólans verði með svipuðum hætti og verið hefur, að minnsta kosti í náinni framtíð.

Starfslið Orkustofnunar samanstendur af mjög hæfum og vel menntuðum einstaklingum sem eru reiðubúnir að taka frumkvæði og ábyrgð hver á sínu sviði, en um leið opnir fyrir samskiptum, liðveislu og gagnkvæmri aðstoð við að tryggja gæði ákvarðana og þess sem við látum frá okkur fara. Stofnunin er því eins konar flókin vél eða gangvirki þar sem tannhjólin passa saman og þegar best gengur er orkumálastjóri meira í hlutverki smyrjarans en vélstjórans í okkar daglegu störfum.

Ég vil þakka starfsfólki Orkustofnunar fyrir vel unnin störf á liðnu ári og óska ykkur gleðilegrar og notalegrar jólhátíðar með fjölskyldum ykkar og vinum og hlakka til takast á við ný verkefni með ykkur með hækkandi sól á nýju ári.

DEILA