Jákvæð fjárhagsáætlun

Fimmtudaginn 5. desember 2019 var fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 samþykkt með atkvæðum meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks.  Eins og gengur þá sýnist sitt hverjum um þessa áætlun.  Þrennt vil ég  þó nefna sérstaklega.

Afgangur af rekstri sveitarsjóðs

Gert er ráð fyrir 29 milljóna afgangi af rekstri sveitarsjóðs.  Auðvitað er aldrei hægt að sjá fyrir allt sem getur komið upp á í rekstri sveitarfélags en með því að gera ráð fyrir svona myndarlegum afgangi er hægt að vera nokkuð bjartsýnn á að reksturinn endi réttu megin við núllið.  Það væri þá í fyrsta skipti síðan árið 2013.   Áætlunin fyrir heildarrekstur sveitarfélagsins gerir svo ráð fyrir afgangi upp á 168 milljónir.

Lækkun skulda

Á sama tíma og gert er ráð fyrir framkvæmdum upp á 600 milljónir er gert ráð fyrir að skuldir sveitarfélagsins lækki um 266 milljónir.  Skuldir sveitarfélagsins hafa ekki lækkað á milli ára frá árinu 2013.  Með lækkun skulda er auðvitað verið að draga úr þeim fjármunum sem fara í vaxtagreiðslur, engum íbúum til gagns.  Mér finnst líka sérstaklega mikilvægt að komandi kynslóðir hafi eitthvert svigrúm til fjárfestinga og þá hugsanlega tímabundinnar aukningar á skuldum.  Til þess að það eigi að vera hægt megum við sem stjórnum í dag ekki afhenda þeim reksturinn með skuldir í lögbundnu hámarki.  Það er því afar mikilvægt að halda áfram á þessari braut, rólega en ákveðið.

Lækkun fasteignagjalda

Gert er ráð fyrir að tekjur sveitarfélagsins aukist um 106 milljónir á milli ára og er um að ræða hækkun á öllum helstu tekjuliðum.  Undanfarin ár hefur fasteignamat í Ísafjarðarbæ hækkað stöðugt og þar sem fasteignagjöldum hefur verið haldið óbreyttum hafa þau hækkað jafnhratt.  Að óbreyttu hefðu þau hækkað um rúmlega 10% að meðaltali árið 2020.  Á fundi bæjarstjórnar 20. júní var samþykkt með atkvæðum meirihlutans að lækka fasteignagjöldin í næstu fjárhagsáætlun.  Af hálfu okkar í meirihlutanum var tvennt alveg ljóst við þessa samþykkt.  Í fyrsta lagi vildum við axla okkar ábyrgð á lífskjarasamningunum með því að láta fasteignagjöldin ekki hækka um meira en 2,5% eins og Samband íslenskra sveitarfélaga skoraði á sveitarfélögin að gera.  Í öðru lagi var ljóst að lækkun fasteignagjaldanna yrði að vera þannig að það hefði ekki áhrif á framlög okkar úr jöfnunarsjóði.  Útfærslan er hins vegar nokkuð flókin þar sem hækkun fasteignamats í bæjarfélaginu er mjög misjöfn eftir byggðakjörnum og hverfum.  Augljóslega er ekki hægt að hafa mismunandi álagningarprósentu innan sveitarfélagsins og því varð að finna út hvaða breyting skilaði því að fasteignagjöldin hækkuðu að meðaltali ekki meira en sem nemur 2,5%.  Niðurstaðan er lækkuð álagningarprósenta bæði vatnsgjalds og holræsagjalds sem skilar umræddri niðurstöðu.

 

Undirritaður gat því stoltur og sáttur samþykkt umrædda fjárhagsáætlun og horfir bjartsýnn til ársins 2020.  Það eru spennandi tímar fram undan i uppbyggingu í Ísafjarðbæ og ótal tækifæri fyrir okkur öll til að gera okkar góða bæ enn betri.

 

Jónas Þór Birgisson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ