Ísafjarðarbær: Styrktarsamningur vegna afreksbrautar við MÍ undirritaður

Styrktarsamningur milli Ísafjarðarbæjar og Menntaskólans á Ísafirði vegna afreksbrautar við skólann var undirritaður á dögunum en samningurinn er til eins árs. Í samningnum er kveðið á um að framlag MÍ sé að skipuleggja starfsemi afreksíþróttasviðsins, semja við þjálfara um þjálfun í sínum greinum, Sjúkraþjálfun Vestfjarða um þrekæfingar og að leggja til kennara og húsnæði. Þá er rekstrarkostnaður, kynning og utanumhald á höndum menntaskólans. Ísafjarðarbær leggur til 1.911.613 kr. sem eru ætlaðar í launagreiðslur til þjálfara þeirra íþróttagreina sem í boði eru auk þess sem sveitarfélagið leggur til tíma í íþróttahúsinu á Torfnesi sem eru annars ekki í notkun, í samráði við forstöðumenn íþróttamannvirkja.
Það voru þeir Jón Reynir Sigurvinsson, skólameistari Menntakólans á Ísafirði, og Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, sem undirrituðu samninginn. Um 40 nemendur skólans stunda nám við afreksbrautina og var hluti þeirra viðstaddur undirritunina. Nemendurnir stunda körfubolta, fótbolta, handbolta, blak og dans.

Athugasemdir

athugasemdir