Íbúafjöldi: fjölgaði um 0,8% á Vestfjörðum

Þjóðskrá íslands hefur birt íbúafjölda eftir sveitarfélögum frá 1.desember 2018 til 1. desember 2019.  Landsmönnum fjölgaði um 7.208 manns eða 2%. Á suðvesturhorninu varð fjölgunin meiri. Á Suðurlandi fjölgaði um 3,7%, á Suðunesjum um 2,9% og 2,1% á höfuðborgarsvæðinu. Annars staðar varð fjölgunin undir landsmeðaltali, 1,4% á Norðurlandi vestra, 0,8% á Vestfjörðum og Vesturlandi og 0,5% á Norðurlandi eystra og einnig á Austurlandi.

Á Vestfjörðum fjölgaði íbúum um 59 og fjölgun varð í 8 sveitarfélögum af 9. Aðeins á Tálknafirði fækkaði íbúum. Mest varð fjölgunin í Vesturbyggð, en þar fjölgaði um 24. Næstmest fjölgun varð í Ísafjarðarbæ, en þar fjölgaði um 13 manns. Í Súðavík fjölgaði um 10 manns. Um síðustu mánaðamótu voru skráðir 7.123 íbúðar á Vestfjörðum. Er þetta annað árið í röð sem fjölgar lítillega íbúum í fjórðungnum. Fyrir tveimur árum voru 6.992 skráðir til heimilis og er fjölgunin 131.

Hlutfallsleg fjölgun varð mest í Árneshreppi 7,5%, þá í Súðavík, en það varð fjölgun um 5% og í Kaldrananeshreppi fjölgaði um 4,9%.