Heilsufar hamlar daglegu lífi fjórða hvers íbúa

Árið 2018 kvaðst um þriðjungur íbúa á Íslandi stríða við langvarandi veikindi. Hlutfall fólks sem býr við takmarkanir í daglegu lífi sökum heilsufars hefur aukist undanfarin 10 ár. Árið 2008 var hlutfallið 16,1%, en það var 26,0% 10 árum seinna. Seinustu ár hefur aukningin ekki verið tölfræðilega marktæk á milli ára, en hlutfallið 2018 er þó marktækt hærra en fyrir fimm árum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum úr lífskjararannsókn Hagstofu Íslands.

Langtímaveikindi eru algengari meðal kvenna og hafa verið það frá upphafi mælinga, árið 2004. Að sama skapi eru konur líklegri til að finna fyrir takmörkunum í daglegu lífi vegna heilsubrests, miðað við karla. Árið 2018 bjó ein af hverjum þremur konum við heilsufarslegar takmarkanir í daglegu lífi borið saman við einn af hverjum fimm körlum sama ár. Þeir sem eru eldri eiga frekar við langvarandi veikindi að stríða og búa við meiri heilsufarslegar takmarkanir en yngra fólkið. Til dæmis á þriðjungur í aldurshópnum 45-54 ára við langvarandi veikindi að stríða borið saman við nær helming í aldurshópnum 65 ára og eldri.

Hærra hlutfall fólks með grunnmenntun býr við langvarandi veikindi og takmarkanir sökum heilsufars borið saman við fólk með háskólamenntun. Árið 2018 bjó til dæmis um einn af hverjum þremur með grunnmenntun við heilsufarslegar takmarkanir borið saman við einn af hverjum fimm með háskólamenntun.

Bæjarins besta mun ef til vill fá eftir áramótin nánari upplýsingar um hvenig hamlandi heilsufar skiptist milli landshluta.

DEILA