Framsókn: styrkja dreifikerfi raforku

Í fréttatilkynningu frá þingflokki Framsóknarflokksins segir að óveðrið sem geysað hefur á Íslandi síðustu daga hafi minnt á að við búum í landi þar sem náttúruöflin geta verið illviðráðanleg.

Þá segir:

„Þakka ber öllum sem tekið hafa þátt í undirbúningi viðbragðsaðila, fyrirbyggjandi aðgerðum og björgunarstörfum undanfarna sólarhringa. Ljóst er að án góðs skipulags og undirbúnings hefði getað farið verr og að viðbragðsaðilar hafa unnið þrekvirki með störfum sínum.

Fréttir af rafmagnsleysi á stórum svæðum og rofi á fjarskiptum sýna að styrkja þarf grunninnviði enn betur. Það er grundvallar öryggismál fyrir fólkið í landinu að styrkja dreifikerfi raforku til að tryggja afhendingaröryggi og ekki síður að öryggi fjarskipta sé með þeim hætti að hægt sé að ná til viðbragðsaðila þegar á þarf að halda.

Þingflokkur Framsóknar mun vinna að því að þessi mál verði skoðuð sérstaklega þegar búið er að meta afleiðingar veðursins og tjón af völdum þess. Þessir atburðir kalla á yfirferð stjórnvalda á áætlunum um uppbyggingu raforku- og fjarskiptakerfa, og fyrirkomulagi neyðarráðstafana eins og varaaflsstöðva.“

 

DEILA