Flutningstöp á raforku: jafngilda 1,25 Hvalárvirkjun

Nýverið voru opnuð tilboð í raforku sem áætlað er að muni tapast á 1. ársfjórðungi næsta árs en Landsnet býður fjórum sinnum á ári út alla þá orku sem tapast í flutningskerfinu.

Flutningstöp er sú raforka sem tapast vegna viðnáms í raflínum og spennum í raforkuflutningskerfinu. Ríflega 2% þeirrar raforku sem mötuð er inn á kerfið tapast á leið til notenda. Sú raforka samsvarar um 400 GWh/ári sem jafngildir áætlaðri framleiðslu Hvalárvirkjunar í eitt ár og þrjá mánuði. Ársframleiðsla Hvalárvirkjunar er áætluð 320 GWh.

Raforkuverð vegna flutningstapa verður 5,45 kr/kWst fyrir fyrsta ársfjórðung 2020.

Boðnar voru út tvenns konar vörur. Annars vegar er um að ræða grunntöp með fullum nýtingartíma og hins vegar eru það viðbótartöp með 41% nýtingartíma og sveigjanleika sem nemur magn aukningu eða – minnkun um +/- 30%. Alls voru 97 GWh af raforku boðin út en það er sú raforka sem áætlað er að tapist í flutningskerfinu á næsta ársfjórðungi.