Flutningi fjögurra lambhrúta yfir varnarlínu vísað til lögreglu

Matvælastofnun hefur óskað eftir lögreglurannsókn á meintum flutningi fjögurra lambhrúta frá Vestfjörðum til Norðurlands eystra. Óheimilt er að flytja sauðfé yfir varnarlínur nema í sérstökum undantekningartilfellum að fengnu leyfi stofnunarinnar.
Meintur flutningur uppgötvaðist við eftirlit og hefur flutningsbann verið sett á hrútana.

Árið 2016 sótti viðtakandi hrútanna um leyfi til Matvælastofnunar um kaup á fimm lambhrútum úr Vestfjarðahólfi vestra. Þeirri umsókn var hafnað.

Tilgangur dýrasjúkdómalaga er m.a. að hindra útbreiðslu dýrasjúkdóma og vinna að útrýmingu þeirra. Samkvæmt þeim lögum ákveður ráðherra, að fengnum tillögum Matvælastofnunar, hvaða varnarlínum skuli haldið við. Varnarlínur eru ákveðnar til að verja eftir föngum bústofn bænda fyrir dýrasjúkdómum.

Ekki hafa fengist upplýsingar hjá Lögreglunni á Vestfjörðum hvort rannsókn sé hafin.