Edinborgarhúsið: Ísafjarðarbær óskar eftir viðræðum við ríkið

Bæjarráð ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að óska eftir fundi við ríkið um þríhliðasamning milli Ísafjarðarbæjar, menntamálaráðuneytisins og Menningarmiðstöðvarinnar Edinborgarhússins um rekstur og starfsemi menningarmiðstöðvarinnar.

Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta hyggst bærinn leggja til 4 milljónir króna til reksturs Edinborgar hússins gegn jafnháu framlagi frá ríkinu. Verði ráðinn starfsmaður fyrir húsið fyrir framlagið.

Jón Sigurpálsson, formaður stjórnar Edinborgarhússins ehf   sagði í samtali við Bæjarins besta að erfitt hafi reynst að ná eyrum Menntamálaráðuneytisins en vonaðist eftir því að viðræður við ríkið gætu hafist sem first. Hann sagði að óskað væri eftir sambærilegri meðhöndlun af hálfu ríkisins og önnur menningarhús hafi fengið frá ríkinu.

Edinborgarhúsið stendur í viðræðum við Landsbankann um úrlausn á skuldum hússins við bankann. Jón segir að nokkrar sviðsmyndir hafi verið lagðar fyrir bankann sem fælu í sér skuldbreytingar  sem Edinborgarhúsið gæti staðið undir.  Jón Sigurpálsson sagði að rekstrarstyrkur frá ríki og sveitarfélagi væri algert lykilatriði í lausn á fjárhagsstöðu Edinborgarhússins.

DEILA