Byggðastofnun: umsókn Vestfisks ehf. og samstarfsaðila féll best að viðmiðum

Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar segir að öllu athuguðu hafi umsókn Vestfisks ehf og fleiri fallið best að  viðmiðum um trúverðuga útgerð og vinnslu sjávarafurða, fjölda heilsársstarfa, jákvæð áhrif á atvinnulíf og trausta rekstrarsögu forsvarsmanna  umsækjenda.

Fimm umsóknir bárust og voru þær frá ÍS 47 og samstarfsaðilum,  Walvis ehf. og samstarfsaðilum, Vestfiski ehf. og samstarfsaðilum, WSG Trading ehf, og West Seafood ehf. en umsókn síðast nefnda félagsins var hafnað vegna gjaldþrots þess.

Aðalsteinn segir að fundað hafi verið með umsækjendum, bæði símleiðis og beint og þeim boðið að skýra umsóknir sínar nánar eftir því sem þeir óskuðu.  Stjórn Byggðastofnunar fjallaði um málið á tveimur fundum og tók ákvörðun á fundi sínum þann 17. desember s.l., að höfðu samráði við Ísafjarðarbæ.

Byggðastofnun greindi ítarlega fjárhagsstöðu og rekstrarsögu fyrirtækja og forsvarsmanna allra umsækjenda og taka niðurstöðurnar m.a. mið af því eins og reglugerðin gerir ráð fyrir.  Í ferlinu var reynt að virkja umsækjendur til samstarfs og m.a. kannað hvort til álita kæmi að skipta aflamarkinu á milli þeirra en því var hafnað.

Eignatengsl höfðu engin áhrif

Aðalsteinn var inntur eftir svörum Byggðastofnunar við  þá gagnrýni að Byggðastofnun hafi litið til eigin hagsmuna við ráðstöfun byggðakvótans sem eigandi í Íslandssögu ehf í gegnum eignarhaldsfélagið Hvetjanda.

„Byggðastofnun er hluthafi í Eignarhaldsfélaginu Hvetjanda og tilnefnir í því tvo stjórnarmenn. Hvetjandi á 19.2% hlut í Íslandssögu sem er eitt þeirra fjögurra félaga sem saman standa að þeirri umsókn sem samþykkt var, hin eru Vestfiskur ehf sem leiðir verkefnið, Aurora Seafood ehf og Klofningur ehf. Hvetjandi er átthagafjárfestir og hefur þann tilgang skv. samþykktum félagsins að taka þátt í stofnun og starfsemi annarra félaga sem rekin eru á grundvelli arðsemissjónarmiða og/eða eru mikilvægur þáttur í uppbyggingu atvinnulífs á Vestfjörðum.  Hvetjandi greiðir ekki arð til hluthafa sinna og þeim fjármunum sem kunna að verða til í rekstri Hvetjanda er ráðstafað til verkefna á svæðinu í samræmi við tilgang félagsins.  Sambærileg félög eru starfandi í öðrum landshlutum.   Það er hlutverk Byggðastofnunar að stuðla að framgangi atvinnulífs á veikari svæðum þar sem skert aðgengi að lánsfé hefur hamlað rekstri.  Þau tengsl sem hér hefur verið vísað til eiga að líkindum við um mikinn meirihluta þeirra sem koma að sjávarútvegi á svæðinu, m.a. um félög tengd öðrum umsækjendum um Aflamarkið á Flateyri og höfðu engin áhrif á þá ákvörðun sem hér hefur verið tekin.  Hún er tekin af stjórn Byggðastofnunar að vandlega athuguðu máli og byggir á þeim forsendum og viðmiðum sem reglugerð nr. 643/2016 kveður á um.“