Ár sviptinga og vaxtar í fiskeldi

Árið 2019 var ár mikilla breytinga, sviptinga og vaxtar í íslensku fiskeldi. Viðamikil endurskoðun fór fram á öllu lagaumhverfinu, árið einkenndist af miklum vexti í framleiðslunni og útflutningsverðmætunum og ný leið opnaðist inn á tollfrjálsan Kínamarkað fyrir fiskeldisafurðir.

Gagnger endurskoðun á lagaumhverfinu

Gagnger endurskoðun á lögum um fiskeldi hefur staðið yfir allt frá árinu 2017. Sérstök nefnd sem sett var á laggirnar það ár vann ítarlega úttekt á fiskeldismálunum, lagði til breytingar á löggjöf og reglum varðandi greinina. Frumvarp var lagt fram á árinu 2018 en hlaut eigi afgreiðslu á Alþingi. Málið var svo sent í umfangsmikið samráðsferli í árslok 2018 og loks lagt fram á Alþingi snemma á þessu ári.

Um var að ræða tvö lagafrumvörp. Annað var varðandi heildarlöggjöfina og byggðist á því sem á undan hafði farið. Hitt laut að sérstakri gjaldtöku á fiskeldisfyrirtæki. Bæði þessi mál voru afgreidd sem lög frá Alþingi í júní síðast liðnum. Þar með liggur fyrir sá rammi sem atvinnugreininni er ætlað að starfa eftir um fyrirséða framtíð.

Það er í sjálfu sér jákvætt að nú liggur fyrir tiltekinn lagarammi. Það stuðlar að fyrirsjáanleika og menn vita þá að hverju þeir ganga. Margt var það hins vegar í þessum lögum sem við fiskeldismenn vorum óánægðir með og vöruðum raunar við í ítarlegum umsögnum á öllum stigum málsins. Því miður var með afar takmörkuðum hætti tekið tillit til varnaðarorða og ábendinga okkar.

Ýmislegt við að athuga

Í heild séð er ljóst að hin nýja löggjöf leggur miklar og nýjar kvaðir á fiskeldið. Í mörgu hafði greinin kallað eftir slíku. Má þar nefna kröfur um aukið gagnsæi sem greinin hafði haft frumkvæði að. Það telst varla daglegt brauð að atvinnurekstur kalli eftir slíku. En fiskeldisfyrirtækin töldu það jákvætt og voru þess því hvetjandi. Við vöruðum á hinn bóginn við því flækjustigi sem er til staðar, svo sem við leyfisveitingar, sem taka óheyrilegan tíma og langt umfram það sem lög, núverandi og fyrrverandi, kveða á um. Því miður var ekkert á það hlustað. Við vöruðum einnig sterklega við því að gera skil á milli nýrrar og eldri löggjafar með þeim hætti sem gert var. Við töldum að slíkt gæti búið til óþarfa vandræði og ósanngirni gagnvart einstökum fyrirtækjum. Sú varð og raunin. Það er mjög miður, enda var með þessu gripið inn í ferli og nýjar leikreglur búnar til í miðjum klíðum. Ljóst er að þetta bitnaði með misjöfnum hætti á fyrirtækjunum og bjó til mikið óréttlæti, rétt eins og við marg bentum á og vöruðum sterklega við.

Ný löggjöf um sérstaka gjaldtöku er meingölluð. Þar er gert ráð fyrir tiltekinni skattheimtu þar sem andlag skattheimtunnar er framleiðslumagnið; algjörlega án tillits til afkomunnar. Þetta er arfa vond aðferð. Í lögunum er gert ráð fyrir að þetta taki gildi í sjö skrefum og verði að fullu komin til framkvæmda innan sjö ára. Í nefndaráliti meirihluta atvinnuveganefndar var því á hinn bóginn heitið að þessi aðferð yrði endurskoðuð og er nauðsynlegt að við það verði staðið.

Í Noregi hefur enginn lagt til að fara þá skattlagningarleið sem hér hefur verið vörðuð

Í Noregi hefur nýverið verið lögð fram skýrsla um framtíðargjaldtöku í fiskeldi. Þar er ólíku saman að jafna. Noregur er lang öflugasta fiskeldisþjóð í heimi, með um helming heimsframleiðslunnar og fiskeldið þar í landi á sér langa sögu. Engum datt í hug að beita sömu aðferðafræði og hér er boðuð varðandi gjaldtökuna. Og í Noregi hvarflaði heldur ekki að nokkrum manni að hefja gjaldtöku fyrr en framleiðslan var farin að nema hundruðum þúsunda tonna. Tillaga meirihluta þeirra nefndar sem vann að þessum málum í Noregi var að leggja á 40% viðbótar tekjuskatt. Minnihlutinn taldi það hins vegar óðs manns æði að leggja á slíkan ofurskatt. Mikil andstaða er við þessar tillögur um svo mikla skattheimtu á fiskeldi í Noregi. Athygli vekur að sú andstaða er jafnt í stjórnmálaflokkunum ( td báðum stjórnarflokkunum) í viðskiptalífinu og einnig launþegahreyfingunni. Ólíklegt má því telja að hugmyndirnar um stórfellda viðbótarskattlagningu á fiskeldi verði að veruleika.  Í Noregi leggur enginn það til að fara þá leið sem hér hefur verið vörðuð, að skattleggja framleiðsluna án tillits til afkomu.

Ár mikils vaxtar í fiskeldi

Ársins 2019 verður örugglega minnst fyrir mikinn vöxt í íslensku fiskeldi. Fullyrða má að verðmætis- og magnaukningin frá fyrra ári verði um 100%. Fiskeldið er nú þegar búið að skipa sér mikilvægan sess í atvinnulífi okkar og lætur fyrir sér finna þegar kemur að útflutningstekjum og verðmætasköpun. Nú stappar nærri að útflutningsverðmæti fiskeldis verði nálægt útflutningsverðmæti kolmunna og makríls.

Þetta eru sannarlega góð tíðindi; ekki síst á tímum sem þessum, þar sem íslenskt efnahagslíf hefur orðið fyrir bakslagi vegna loðnubrests og fækkunar ferðamanna. Við þurfum á öllu okkar að halda til þess að geta staðið undir góðum og batnandi lífskjörum og áframhaldandi stekri stöðu efnahagslífsins.

Kínamarkaður hefur opnast fyrir fiskeldisafurðir

Þriðja atriðið sem nefna má og telja má til sérstakra tíðinda á fiskeldissviðinu, er að frá og með þessu hausti höfum við fengið tollfrjálsan aðgang að mörkuðum í Kína. Fríverslunarsamningur við Kína tók gildi í ársbyrjun 2014 og eiga þeir miklar þakkir skildar sem að því stóðu. Kína er ört stækkandi markaður og sá hluti þjóðarinnar sem er með kaupmátt á borð við það sem við þekkjum á Vesturlöndum nemur nú hundruðum milljóna manna og fer vaxandi. Þarna leynast því mikil tækifæri.

Engin önnur laxeldisþjóð við Norður Atlantshaf býr við slíkar aðstæður sem við, með tollfrjálsu aðgengi inn til Kína. Við höfum því fengið forskot. Athyglisvert er að Chile, sem býr eins og við að fríverslun við Kína, hefur stóraukið útflutning á laxi þangað. Með vaxandi framleiðslu á komandi árum má ætla að Kínamarkaður verði mikilvæg viðbót. Fréttir af því að kínversk flugfélög stefni að því að fljúga frá Íslandi til Kína eru þar af leiðandi afar uppörvandi og mikilvægar fyrir laxeldi og annan útflutning til þessarar fjölmennustu þjóðar veraldar.

 

 

Spennandi tímar framundan

Framundan eru spennandi tímar í fiskeldi á Íslandi. Framleiðsla og útflutningur á bleikju fer vaxandi og er nú um 6 þúsund tonn á ári. Okkar staða á erlendum mörkuðum fyrir þessa afurð er mjög sterk. Hvað laxeldið áhrærir liggur fyrir að þegar útgefin leyfi nema um 50 þúsund tonnum. Á allra næstu  árum eru allar líkur á að við komumst í þá framleiðslu, sem yrði gríðarleg búbót. Það er því ekki ofsagt, sem oft hefur verið haft á orði, að fiskeldi á Íslandi sé komið til að vera.

 

Einar K. Guðfinnsson,

starfar að fiskeldismálum hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS.

DEILA