Af Sigga á Góustöðum og sveinum hans

Mynd: Helena Árnadóttir.

Áramótum fylgja ýmsir skemmtilegir siðir og venjur. Um áratuga skeið á síðustu og þessari öld var Sigurður Sveinsson frá Góustöðum í Skutulsfirði í fararbroddi manna er stóðu fyrir áramótabrennu fyrir botni Skutulsfjarðar.  Síðustu áratugi hefur brennan verið á Hauganesi. Löngum voru trébátar uppistaða þessara brenna. Er dró að lokum síðustu aldar fækkaði trébátum mjög. Við lok áramótabrennu ársins 1998 ræddu Sigurður og lærisveinar hans að fyrir áramótin næstu 1999-2000 yrði reynt til þrautar að útvega stóran trébát til brennunnar.

Sigurður Sveinsson frá Góustöðum í kunnuglegu hlutverki. Á myndinni er einnig Ólafur Guðmundsson frá Árbæ sem um árabil kom að brennumálum í Skutulsfirði. Mynd: Magni Örvar Guðmundsson.

Lítið gekk framan af ári en 11.júní dró til tíðinda þegar Hrauney BA,  70 tonna og 40 ára gamall eikarbátur,  sökk í Hafnarfjarðarhöfn. Báturinn var þá skráður með heimahöfn á Brjánslæk en hafði legið í Hafnarfjarðarhöfn í rúm sex ár mönnum til mikils ama. Hann hafði árið 1993 verið úreltur vegna kaupa á stærra skipi. Með fléttu skúffufyrirtækja hafði eiganda bátsins tekist, með litlum sóma, að losna undan skyldum sínum og báturinn því án eiganda.

Nú vildi svo til að lærisveinar Sigurðar þekktu til Más Sveinbjörnssonar hafnarstjóra í Hafnarfirði. Var því slegið á þráðinn til Más og honum gert það kostaboð að losa hann við bátinn án kostnaðar. Már mátti vart mæla þegar erindið hafði verið borið upp. Um síðir spurði hann hvort menn væru ekki með öllum mjalla. Ætla að taka við sokknum báti í Hafnarfjarðarhöfn og koma honum til Ísafjarðar til brennslu. Þar hafði Már auðvitað rétt fyrir sér. Um síðir sannfærðist hann um ágæti hugmyndarinnar hvað Hafnarfjarðarhöfn varðaði og hafnarstjórn samþykkti kostaboðið. Án efa hefur mönnum þar verið stórlega létt.

Hvernig koma menn svo 70 tonna ónýtum trébát til Ísafjarðar. Jú þeir hringja í vin. Togarinn Stefnir ÍS var skömmu síðar í slipp í Reykjavík og Einar Valur framkvæmdastjóri HG samþykkti fyrir sitt leyti að Stefnir tæki Hrauneyju í tog til Ísafjarðar að slipptöku lokinni og sama gerði Skarphéðinn Gíslason og  áhöfn hans á Stefni.

Mánudaginn 26.júlí hófst svo ferðin til Ísafjarðar. Hún gekk tíðindalaust þar til komið var í Breiðafjörðinn. Þar slitnaði dráttartaugin. Áhöfninni náði að koma taug að nýju um borð í Hrauneyju og segir þjóðsagan að Njáll Flóki Gíslason hafi synt með endann á milli skipa. Gekk siglingin tíðindalaust um stund.

Stefnir með Hrauneyju í togi fyrir utan Súgandafjörð. Mynd: Pálmi Stefánsson

Þegar komið var að Dýrafirði var Hrauney orðin sigin og ljóst að leki var kominn að bátnum. Nú voru góð ráð dýr. Eins og fyrr hringja menn í vin. Skömmu síðar lét snekkjan Stálheppinn úr höfn á Ísafirði undir stjórn Pálma Stefánssonar. Um borð voru öflugar dælur. Undan Súgandafirði tókst að koma dælum í Hrauneyju og koma í veg fyrir að brennuefnið sykki.

Björgunarskipið Gunnar Friðriksson skilar Hrauney „heilu og höldnu“ í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Helena Árnadóttir.

Er í höfn var komið á Ísafirði runnu tvær grímur á bæjarbúa. Var virkilega verið að flytja bátsflök til bæjarins til þess eins að grotna í höfninni? Þegar út spurðist að hér væru Sigurður Sveinsson og félagar á ferð færist ró yfir og veðmál hófust um hvort og hvernig í ósköpunum menn kæmu bátum uppá Hauganesið.

Fyrsta verkefnið sem beið manna var að fjarlægja úr bátnum allt óbrennanlegt. Tókust samningar við ónefndan athafnamann, sem þá var að hefja söfnun sína á samgöngumunum. Ögurstund rann upp og enduðu brúin, aðalvélin og annað járn ævi sína sem garðaprýði innar í Ísafjarðardjúpi. Voru það að líkindum fyrstu munirnir á því merkilega safni er þar hefur blómstrað síðan.

Að því loknu hófust útreikningar. Hvernig í ósköpunum ætti að koma bátnum á brennustæðið. Undan Hauganesi er aðgrunnt og því þurfti á endanum að grafa skipaskurð með stórvirkum gröfum svo koma mætti bátnum að landi. Siggi Sveins og sveitastrákarnir í firðinum fóru létt með það verkefni á tækjum sínum ásamt vinum sínum úr Súðavík.  Félagsmenn í Björgunarfélagi Ísafjarðar á bát sínum Gunnari Friðrikssyni komu Hrauneyju úr höfn og í skipaskurðinn góða.

Skipaskurðurinn góði. Mynd: Magni Örvar Guðmundsson.

Úr fjörunni og uppá Hauganesið er talsverður bratti. Í það minnsta ef fara á þar um með 70 tonna bát. Reynt var að draga hann með stærstu vinnuvélum er fundust við Ísafjarðardjúp en báturinn haggaðist ekki. Voru aðfarir þessar talsvert aðhlátursefni vegfarenda er leið áttu um Skutulsfjörð þessa haustdaga. Um síðir voru dregnar fram tvær sexskornar blakkir  er upphaflega voru í eigu ameríska hersins á Straumnesfjalli. Með þeim var hægt að margfalda átak tækjanna er drógu í bátinn.   Um síðir gaf stálið í blökkunum sig. Aftur voru menn því á byrjunarreit. Eftir nýja útreikninga varð ljóst að einungis myndu stærstu togblakkir er völ væri á duga til verksins. Þær voru til staðar og fengust lánaðar hjá togaraútgerðum bæjarbúa og voru þær sumar hverjar fjarlægðar tímabundið úr toggálgum skipanna. Á endanum urðu þær tólf talsins.  Þær virkuðu en þá kom upp nýtt vandamál. Ekkert tæki gat veitt nægilega festu á móti þeim krafti sem þurfti til þess að koma bátnum af stað. Að endingu var því aflagður toghleri af stærstu gerð grafinn djúpt í jörðu á Hauganesi og loks þá tókst verkið. Hægt en örugglega silaðist Hrauney uppá brennustæðið. Því er ekki að neita að talsvert var mönnum létt þann daginn.

Toghleranum komið á sinn stað. Mynd: Magni Örvar Guðmundsson.
Fjöldi vinnuvéla af stærri gerðinni kom að drætti Hrauneyjar. Mynd: Magni Örvar Guðmundsson.

Að brenna stóran bát er talsverð kúnst þegar á öllu er á botninn hvolft. Það verður jú að sjá til þess að hann brenni því sem næst  til ösku. Til þess að tryggja gott loftflæði þurfti því að saga stór göt á byrðing bátsins. Það eitt og sér var ekki talið duga. Nauðsynlegt var því að koma olíu fyrir um borð í bátnum og sjá til þess að hún brynni þegar á brennuna liði. Þá kom sér vel áratuga þekking Sigurðar og lærisveina hans. Til þess nýttist úrgangsolía best. Hún var sett í tunnur ásamt vatni. Þegar vatnið fraus lagðist það undir í tunnuna. Þessar tunnur voru síðan gataðar og festar í bátnum. Þegar leið á brennuna bráðnaði vatnið og sauð. Við suðuna gaus því olían úr tunnunni. Úr var myndarlegt olíugos og hjálpaði mjög brennu bátsins. Hann brann mun betur en ella.

Langt liðið á brennuna. Ef glöggt er skoðað má sjá olíugos úr stefni bátsins. Mynd: Helena Árnadóttir.

Reyndar ekki til ösku því það kraumaði í flakinu í nokkra daga. Á þrettándanum hringdi bóndinn á Hafrafelli og spurði með sínu alkunna rólyndi hvort áramótabrennunni færi ekki að ljúka. Var því slökkvilið fengið til þess að slökkva í síðustu glæðunum og svæðið hreinsað.

Þegar eldur var lagður að brennunni á gamlárskvöld hafði undirbúningur brennunnar staðið yfir frá því síðustu dagana í júlí. Nánast allar helgar í fimm mánuði hafði hópur manna verið við störf undir styrkri stjórn brennustjórans Sigurðar. Til verksins komu allar stærstu vinnuvélar við Ísafjarðardjúp. Hvarvetna komu brennumenn að opnum dyrum þegar aðstoð vantaði. Enginn sagði nei. Hljóðfæraleikarar mættu og forsöngvari leiddi fjöldasöng.  Við hápunkt brennunnar hélt Björgunarfélag Ísafjarðar stórkostlega flugeldasýningu með stuðningi góðviljaðra aðila.

Eftir situr spurningin hvað fær fullorðna og að sumra mati viti borna menn til svona verka? Því er best svarað með annarri spurningu. Hvað fær fólk til þess að stunda áhugamál  í öllum sínum frístundum?

Það var létt fyrir Sigurði Sveinssyni og mönnum hans þegar Hrauney var loks komin á brennustað. Frá vinstri: Guðmundur Óli Lyngmó, Halldór Jónsson, Tryggvi Eiríksson, Eggert Jónsson, Pétur Jónsson, Sigurður Sveinsson, Pálmi Stefánsson, Geir Sigurðsson, Hagalín Ragúelsson og Einar Hreinsson. Mynd: Magni Örvar Guðmundsson.

Þegar þessi saga er rifjuð upp kemur fyrst í hugann hjálpsemi allra sem leitað var til eins og áður sagði. Lipurðin hvarvetna. Þrátt fyrir strangar reglur var ávallt keppikeflið að vinna í samræmi við þær allar. Stundum þurfti að sveigja aðeins af leið og því mættu allir embættismenn af mikilli jákvæðni. Enginn þeirra þurfti þó að líta undan. Aðeins að koma á „réttum“ tíma til eftirlits. Allt sem menn tóku sér fyrir hendur var þó, þrátt fyrir allt, gert af varfærni sem áratuga reynsla hafði kennt mönnum.

Nú tuttugu árum eftir þessa áramótabrennu á aðeins eftir að ljúka einu verki á brennustæðinu. Það verður þegar fornleifafræðingar framtíðarinnar finna volduga keðju. Grafa sig eftir henni nokkra metra niður í jörðina. Finna þar sér til mikillar undrunar stóran toghlera. Velta því svo fyrir sér næstu árin á eftir hvaða veiðar hafi verið stundaðar á Hauganesi með þessu veiðarfærum.

Öllum sjálfboðaliðum sem nú undirbúa  áramótabrennur,  íbúum til skemmtunar og gleði, eru sendar baráttukveðjur. Lesendum bb.is er óskað gleðilegs árs og farsældar á komandi ári.

Halldór Jónsson

DEILA