Bæjarins besta: 260 aðsendar greinar á árinu

Benedikt Sigurðsson.

Á árinu 2019 hafa birst 260 aðsendar greinar á vef Bæjarins besta, bb.is, um ýmiss efni og frá miklum fjölda greinarhöfunda.

Margar greinanna hafa fjallað um málefni sem Vestfirðingar láta sig miklu varða svo sem fyrirhugaða Hvalárvirkjun, vegamál í Gufudalssveit og um laxeldi í sjó á Vestfjörðum.

Sú grein sem langmest hefur verið lesin er hins vegar fremur um mannleg samskipti og hamingjuna greinin heitir Pabbi, hver er ríkastur í bænum? og birtist 25 febrúar. Auk þess að vera mest lesin létu um 1800 af lesendunum létu ánægju sína í ljós með greinina með því að líka við hana. Greinarhöfundur er Benedikt Sigurðsson í Bolungavík.

Í öðru sæti á árinu er grein Héðins Ásbjörnssonar frá Djúpuvík í Strandasýslu frá 4. mars sem ber heitið hugleiðingar heimamanns um Hvalárvirkjun og Árneshrepp. Um 1100 af lesendunum lýstu ánægju sína með greinina.

Þremenningarnir baráttuglöðu frá Þingeyri, Bjarni Einarsson, Hallgrímur Sveinsson og Guðmundur Yngvarsson eiga þriðju mest lesnu grein ársins á bb.is. Hún heitir Landráðamennirnir áttu að fara beint í Bláturn og fjallaði um virkjunaráform á Vestfjörðum og ósanngjarna andstöðu við það. Greinin birtist 15. júlí.

Finnur Ólafsson, oddviti Kaldrananeshrepps á fjórðu mest lesnu greinina. Hún birtist 28. september og fjallar um lögþvingaða sameiningu sveitarfélaga. Esther Ösp Valdimarsdóttir er í fimmta sæti með greinina ég var tómstundafulltrúi sem birtist 23. janúar. Esther ræddi um  hæfniskröfur sveitarfélagsins til eftirmanns hennar.

Sr. Magnús Erlingsson, sókarprestur á Ísafirði á 6. mest lesnu greinina Minnipokamenn á Vestfjörðum sem birtist 22. febrúar þar sem vakin er athygli á því að Vestfirðingum er boðið upp á lakari aðstæður en öðrum landsmönnum.

Hafdís Gunnarsdóttir, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga á 7. mest lesnu aðsendu greinina þetta árið. Greinin er frá 19. júlí og heitir Hvalárvirkjun, lykilatriði í uppbyggingu raforkukerfisins á Vestfjörðum.

Í áttunda sæti er Bryndís Schram með grein frá 25. maí sem heitir að gefnu tilefni þar sem hún víkur að því að málverk af fyrstu skólameistarahjónunum hafi verið fjarlægt af vegg í mötuneyti skólans, en það hafði hangið þar í 40 ár.

Steinþór Bragason ritaði grein í byrjun árs, 9. janúar Rétta leiðin, um leiðaval í Gufudalssveit.

Loks í 10. sæti yfir mest lesnu aðsendu greinarnar á bb.is 2019 er grein frá 7. nóvember eftir líffræðingana Þorleif Ágústsson og Þorleif Eiríksson um laxeldi í sjó. Greinin heitir Breiðsdalsá, dæmi um tilbúna laxveiðiá.

DEILA