Vísindaportið: Frá árupptökum til sjávar

Dr. Jill Welter (hægra megin í mynd) við rannsóknir ásamt samstarfsfólki.

Gestur í Vísindaporti vikunnar föstudaginn 8.nóvember er dr. Jill Welter sem er vistfræðingur og sérhæfir sig í vistfræði straumvatna. Í erindinu mun hún fjalla um rannsóknir sínar sem miðast að því að skilja hvernig athafnir manna sem valda umhverfisbreytingum, svo sem hlýnun loftslags og ofauðgun, hafa áhrif á fæðuvef vatna og vinnslu næringarefna. Fyrir frekari upplýsingar sjá samantekt á ensku.

 

Erindinu verður streymt á netinu á YouTube rás Háskólaseturs og hefst útsending kl. 12:10.

 

Dr. Jill Welter hefur starfað á Grænlandi, Svalbarða, Kamtsjatka og á Íslandi, en hér á landi hefur Jill unnið í samvinnu við vísindamenn frá Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna og Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn. Hún hefur einnig unnið að því að koma konum í vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði á framfæri í gegnum röð opinna málstofa og málþinga. Nýlega var sem dæmi haldin ljósmyndasýning um vísindakonur: Changing Climates: A photographic journey of women in science (Loftslag í breytingum: ferðalag í ljósmyndum um vísindakonur), þar sem fjallað var um reynslu vísindateymis í afskekktum byggðum Norðurskautsins.  Jill dvelur nú á haustönn á Ísafirði sem fagstjóri meistaranámsins Climate Change and Global Sustainability (lofslagsbreytingar og hnattræn sjálfbærni) sem SIT-skólinn (School for International Traning), í Vermont í Bandaríkjunum býður upp á í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða.

 

Vísindaportið fer að vanda fram í kaffistofu Háskólaseturs kl.12:10-13. Erindið verður að þessu sinni flutt á ensku. Allir velkomnir.

DEILA