Vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um Reykjavíkurflugvöll

Reykjavíkurflugvöllur séð til suðurs, Reykjavík, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður í bakgrúnni. / Reykjavik Mynd: Mats Wibe Lund.

Sextán þingmenn, þar af fimm frá Norðvesturkjördæmi, hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Meðal flutningsmanna eru Vestfirðingarnir Halla Signý Kristjánsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Er lagt til að eftirfarandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni:

Vilt þú að flugvöllur og miðstöð innanlands-, kennslu- og sjúkraflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík uns annar jafngóður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar?

og gefnir svarmöguleikarnir  já og nei.

Fjórum sinnum áður hefur sambærileg tillag averið lögð fram á Alþingi. Í greinargerð með tillögunni segir að með atkvæðagreiðslunni fengi „þjóðin tækifæri til þess að segja hug sinn og hafa áhrif á það hvar flugvöllurinn og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs verða í fyrirsjáanlegri framtíð, m.a. með tilliti til þjóðhagslegra hagsmuna. Ríkir almannahagsmunir felast í greiðum samgöngum innan lands og staðsetning flugvallarins og miðstöðvar innanlandsflugs hefur afar mikla þýðingu í því samhengi. Flugvöllurinn gegnir mjög mikilvægu öryggishlutverki fyrir almenning í landinu vegna sjúkra- og neyðarflugs, svo og sem varaflugvöllur. Þá gegnir flugvöllurinn mjög mikilvægu hlutverki í almannavarnakerfi landsins.“

Bent er á að  aðalskipulag Reykjavíkur gerir ráð fyrir því að flugvöllurinn víki í áföngum eftir árið 2022 og segir að fyrir liggur að flugvöllurinn lokast í reynd þegar norður-suður-brautinni verður lokað sem Reykjavíkurborg stefnir að 2022.

Tillagan var lögð fram á síðasta þingi og barst 21 umsögn um málið, en varð þá ekki útrædd.

Segir í greinargerðinni : „Yfirgnæfandi meiri hluti sveitarfélaga og samtök sveitarfélaga sem sendu inn umsögn studdu efni tillögunnar um að landsmenn allir fengju að hafa skoðun á framtíð Reykjavíkurflugvallar. Aðeins Reykjavíkurborg var því mótfallin.“

 

Í umsögn Félags íslenskra atvinnuflugmanna kom fram að ærið tilefni væri til að halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu. Reykjavíkurflugvöllur væri samgöngumannvirki sem þjónaði öllum íbúum landsins. Þá kom fram í sameiginlegri umsögn WOW air, stjórnar Íslenska flugmannafélagsins og öryggisnefndar Íslenska flugmannafélagsins að þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar væri þjóðþrifamál. Ekki væri um einkamál Reykjavíkurborgar að ræða, sérstaklega í ljósi þess að ríkið væri eigandi meiri hluta landsins undir flugvellinum. Þá væri hann mikilvægur út frá hagkvæmnis- og umhverfissjónarmiðum sem varaflugvöllur þar sem varaeldsneytisbirgðir væru töluvert minni ef notast væri við hann sem varaflugvöll. Landfræðilega væri Vatnsmýrin ein besta staðsetningin fyrir flugvöll á höfuðborgarsvæðinu, með tilliti til opinberra stofnana og Landspítalans.

 

 

DEILA