Vestfirska vísnahornið 28.11. 2019

Óshyrnan og Þuríður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Á mánudaginn var tekist á á Alþingi um Samherjamálið og stjórnarandstæðingar sóttu að Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra, sem endaði með því að ráðherrann rauk á dyr.

Varla voru fréttirnar búnar þegar Indriði á Skjaldfönn var búinn að yrkja:

Ættarveldis auðnu hallar,

allt með verra brag.

Fylgið hrynur, feigðin kallar.

Fátt er Bjarna í hag.

 

Jón Atli var kominn með aðra um sama efni skömmu seinna:

 

Kristján Þór við Kiðagilið
í krapi nuddar hrút.
Brostið fylgið, búið spilið
og Bjarni labbar út.

 

 

Þarna hefur Indriða verið ofarlega í huga nýleg könnum um fylgi stjórnmálaflokkanna sem sýndi Sjálfstæðisflokkinn með minnsta fylgi sem mælst hefur.

En sama könnum sýndi Miðflokkinn á blússandi siglingu skammt fyrir neðan Sjálfstæðisflokkinn.  Um það orti Indriði aðra vísu og kallaði vá fyrir dyrum:

 

Framm á völlinn Simmi sækir,

sauða fylgið endurheimt.

Valdabrölt og viðbjóðsklækir

og Wintrismálið löngu gleymt.

 

Og bætti svo við:

 

Simmi minn er ennþá að.

Ætlar kerfi að höggva í spað.

Gæskupáfi hjartahreinn.

Honum skákar ekki neinn.

Klausturseta er grafin, gleymd.

Glæst er jafnan Þingsins eymd.

Enginn jafnast á við þann

apalandsins töframann.

 

 

Þá er það síðasta Silfur í Sjónvarpinu á sunnudaginn þar sem mikið gekk á og Jón Gunnarsson, alþm og fyrrverandi Samgönguráðherra lá undir áföllum frá sessunautum sínum sem sökuðu hann um spillingu.

Indriði setti fram sína skilgreiningu á spillingunni:

 

Ef að styður maður mann,

mútugreiðsla telst með sann,

ábata til, aðferð slyng,

-ef sá studdi kemst á þing.

 

Indriði á Skjaldfönn les fleira en um þjóðmálin og hann sá frétt á dv.is sem þann dag var langmest lesin. Fréttin sagði frá því að Manúel Ósk fegurðardís, áhrifavaldur og athafnakona væri gengin út. Birt var svo mynd af henni með stút á vör.  Hagyrðingur einn orti snjalla vísu um fréttina.

Indriði bætti við:

 

Glæsilega orkt er

enginn í þín spor fer.

Manúella brosir ber

og biður þig að -gera sér smá greiða.

 

Samherjamálið fer hátt um þessar mundir og er hagyrðingum sífelld uppspretta í vísnagerð.

Reir frá Drangsnesi lýsir vinfengi Sjávarútvegsráðherrans og Samherjastjórnenda:

 

Vefur örmum vininn sinn
vinahót ei þverra.
Samherjanna kyssir kinn
Kristjan Þór ráðherra.

Samherjarnir fengu þessa limru:

forstjórinn Guðherji Grútur
gerði út erlendis skútur
þar varð’ann að múta
ef veið’átti skúta
samt fór ekki sjálfur í mútur.

 

 

Jón Atli Játvarðsson, Reykhólum  sá líka tækifæri til yrkinga um ráðherrann.

 

Fúll ég sötra flatan bjór
flokka rusl og tapið.
Loks er kiknar Kristján Þór
ég kemst í jólaskapið.

 

 

 

 

Og Samherjamenn fengu sendingu frá Jóni Atla:

 

Samherja og Sjólagrín
sóðalegur fjandi.
Töpuð gula Guggan mín
og gullið flutt úr landi.

 

 

Undanhald og auðinn ver
með afbragðs kvótalykli.
Til Kýpur fer að forða sér
fiskidólgurinn mikli.

 

Ljúkum vísnaþættinum að þessu sinni með þessari góðu náttúrulífslýsingu Reirs frá Drangsnesi.

 

Létt er regnið laugar kinn
lifnar fyrir augum.
Roðagullinn regnboginn
rjóður yst á baugum.

 

Ekki fleira að sinni.

Með góðum kveðjum

Kristinn H. Gunnarsson

 

DEILA