Tæpitungulaust – lífsskoðun jafnaðarmanns

Út er komin bókin Tæpitungulaust eftir Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formann Alþýðuflokksins.

Tilefni þessarar bókar er að vekja upp umræðu um jafnaðarstefnuna, sögulegt hlutverk hennar í að breyta þjóðfélaginu í anda mannréttinda og mannúðar.  Hún svarar spurninginni: Á jafnaðarstefnan erindi við fólk í velferðarríkjum samtímans og í náinni framtíð?

Lífsskoðun jafnaðarmannsins Jóns Baldvins Hannibalssonar kemur hér fram í sögulegu ljósi.  Hann fer með lesandann fram og til baka í Íslandssögunni til að bregða birtu á orsakir og afleiðingar Hrunsins og auðlindapólitík og efnir til raunsærrar umræðu um stöðu Íslands í samfélagi þjóða í nánustu framtíð.  Jafnaðarmaðurinn dýpkar sýn okkar á norræna módelinu, sem ögrun gegn nýfrjálshyggjunni og spyr hvers vegna flestir jafnaðarmannaflokkar Evrópu hafa brugðist því að mæta þessari ögrun.

Kórónan á ferli Jóns Baldvins sem utanríkisráðherra var frumkvæði hans að viðurkenningu alþjóðasamfélagsins á endurreistu sjálfstæði Eystasaltsþjóðann þriggja.  Þetta gerði Jón Baldvin í blóra við yfirlýsta stefnu leiðtoga vesturveldanna.  Hann reyndist meta stöðuna rétt, enda varð stefna hans ofan á í þessu máli.  Þetta hefur enginn íslenskur stjórnmálaleiðtogi leikið eftir og í þessari bók lýsir hann aðdraganda þess sem setti Ísland á heimskortið.

Úr kaflanum Rauði Bærinn – Uppeldisstöð Ísafjarðarkrata

Jón Baldvin ræðir um Rauða bæinn við Stefán Stefánsson skósmið og kosningarstjóra Ísafjarðarkrata. Viðtalið birtist fyrst í Vestra árið 1972.

 

„En það var ekki fyrr en löngu síðar að ég gerðist sannfærður jafnaðarmaður. Ég veiktist af berklum og varð að fara suður á Vífilstaðahæli. Það var einmitt sama árið og Finnur Jónsson fluttist til Ísafjarðar. Það má segja að ég hafi smitast af fleiru en berklum meðan ég var á Vífilstöðum. Það bendir til þess að ég hafi verið orðinn móttækilegur áður. Annars þurfti ekki bóklestur í þá daga til að gerast jafnaðarmaður, ef maður hafði augu og eyru opin. Það var ekki aðeins að kjörin væru kröpp og mannréttindin af skornum skammti. Ég held mann hafi tekið það einna sárast að sjá uppburðarleysið og þrælsóttann greyptan í huga og vitund fólksins. Fílefldir karlmenn fengu ósjálfráðar hreyfingar ef verkstjóra brá fyrir. Fólkið var meðhöndlað eins og dýr og hafði engan skilning á að það ætti skilið aðra meðferð.

En þegar ég kom heim af hælinu fór ýmislegt að breytast á Ísafirði. Maður varð auðvitað að fara heim með hálfan bata – þá voru nú engar tryggingar eða þess háttar. – Ég var ófær til allrar líkamlegrar vinnu og lá uppi á mínum nánustu, sérstaklega Ólafi bróður mínum. Þá var að vísu búið að stofna verkalýðsfélag, en það var lítið meira en nafnið tómt fyrst í stað. Það var ekki farið að starfa í anda neinnar jafnaðarstefnu að ráði fyrr en Finnur kom. Hann lífgaði mikið upp á verkalýðsfélagið og átti manna mestan þátt í því að virkja þá krafta sem það bjó yfir. Fram undir þetta var atvinnulíf bæjarins í höndum nokkurra verslunarfyrirtækja sem fólkið átti þá allt undir. Frægust þeirra var ásgeirsverslun sem átti allan Neðstakaupstaðinn og meira til. Því næst var Edinborgarverslun sem hafði reyndar gengið undir ýmsum nöfnum. Hún átti stóra pakkhúsið, sem Kaupfélagið yfirtók síðar, og þar fyrir framan var uppskipunarbryggja. Og svo var það Tangsverslun (Leonhard Tang & Sön) í Hæstakaupstaðnum. Þeir áttu allt svæðið frá Felli niður að Tangagötu (lóðina þar sem skólarnir eru núna) að Fjarðarstræti (neðan Aðalstrætis). Þetta var nú atvinnurekendavaldið. Það voru þá þegar harðir flokkadrættir í pólitíkinni. Þeir sem aðallega tókust á voru annars vegar þeir sem fylgdu kaupmannavaldinu að málum, (í stórum dráttum stjórnarmenn), og svo andstæðingar þeirra, sjálfstæðismenn, sem reyndar voru skiptir í ýmsa hópa. Það voru býsna harðir kallar sem létu að sér kveða í bæjarmálunum. Oft kom manni sú pólitík einkennilega fyrir sjónir.

Annars fór nú mesti vindurinn úr seglum þessa gamalgróna kaupmannavalds upp úr fyrra stríði; sérstaklega eftir síldarævintýrið 1918. Upp úr því urðu verslanirnar fyrir svo miklum áföllum að þær báru eiginlega ekki sitt barr eftir það. Þá var hér mikið síldarævintýri. Menn rifust um spildur undir söltunarplön meðfram strandlengjunni frá Torfnesi og inn úr. Síldin var í geysiháu verði; fór upp um níutíu krónur tunnan, ef ég man rétt. En þeir oftóku sig; héldu verðinu of háu og enduðu með því að missa af sölu. Það var búið að flytja út heilmikið, en þetta grotnaði niður í stórum stíl ytra. Kiljan sýnist mér gera sér mat úr þessu í króniku sinni af Íslandsbersa. Upp úr þessu fór að losna um gömlu fyrirtækin, sérstaklega eftir að Árni Jónsson féll frá. Hinn mikli auður í búi ásgeirsverslunar fór á tvist og bast til útarfa. Tangsverslun komst á vonarvöl, enda faktorarnir búnir að stela öllu af þeim, greyjunum, eins og yfirleitt var lenska við þessar dönsku einokunarverslanir.

Árið 1921 verður mikil breyting í bæjarlífinu. Gamla flokkaskipunin riðlaðist. Þetta voru erfiðir tímar eftir stríðið. Alþýðuflokkurinn náði hreinum meirihluta í bæjarstjórn í fyrsta sinn formlega í byrjun árs 1921 og jók hann síðan í kosningum seinna á árinu og aftur í nýjum bæjarstjórnarkosningum í upphafi árs 1922.

Ég get sagt þér hérna eina verkfallssögu. Ég held að þetta verkfall, eða þessar aðgerðir, hafi breytt mikið andrúmsloftinu í bænum. Þegar þetta gerðist var ég enn ekki búinn að ná mér eftir berklaveikina og hælisvistina og lá eiginlega uppi á Ólafi bróður mínum. Þá bar það við að atvinnurekendur samþykktu að lækka skyldi kaupið um tíu aura. Ekki man ég nú hvað það var hátt, en það var innan við krónu. Vinna var stopul dag og dag. Við samþykktum þá í verkalýðsfélaginu Baldri að leggja bann á vinnu; lýsa yfir verkfalli. Þetta þýddi að meðlimir verkalýðsfélagsins, 22 að tölu, ef ég man rétt, voru reknir heim úr vinnu frá Sameinuðu verslununum. Þeir kröfðust þess að þeir segðu sig úr félaginu.

Ég man þetta vel; Jón bróðir minn var einn af þeim sem reknir voru heim. Þeir voru svo heima einn til tvo daga, en þá hunskuðust margir aftur í vinnuna. Fátæktin var þeirra fylgikona. Þá ákváðum við að hindra að fiskur kæmist í skip, en pakkhúsin voru full af fiski frá árinu áður. Mjölnir gamli átti að taka fisk frá Jóhanni Eyfirðingi við Edinborgarbryggju. Það lenti á mér, iðjuleysingjanum, að standa á vakt ásamt nokkrum öðrum. Það var ekkert unnið fyrsta daginn. Um kvöldið fréttum við að búið væri að útnefna ríkislögreglumenn til að gæta laga og réttar. Það gerði Oddur sýslumaður. Annar þessara manna var norskur maður, hér búsettur, Syre að nafni. Hann hafði getið sér gott orð í selfangaraslag áður – þetta var oft baldinn ribbaldalýður á stóru norsku selföngurunum og kom oft til slagsmála. Pakkhúsið var þar sem póllinn er núna. Um morguninn erum við á vakt fjórir eða fimm karlar. Inni í pakkhúsinu er fullt af verkfallsbrjótum að vinna fyrir luktum dyrum. Frá pakkhúsdyrunum lágu brautarteinar fyrir vagna alla leið út á Edinborgarbryggju Allt í einu var vængjahurð svipt upp og tvær stelpur sendar fram með troðfulla vagna sem þær ýttu upp á móti, því að það hallaði upp að götubrúninni. Við brugðum á það ráð að láta tvo leggjast á vagnana, svo að þeir hrukku út af sporinu. Sigurður nokkur Bjarnason lá á einum vagninum. Þá kemur Syre hinn norski aðvífandi og ræðst til atlögu við Sigurð, en hann snýr við snöggt og nær undirtökum, og þeir rúlla niður hallann, þannig að Syre lendir undir upp við tunnustafla þar sem Sigurður hélt honum í skrúfstykki (þar af nafnið Syrafellir). Í þessum svifum kemur út Ingólfur Árnason, tengdafaðir Kristjáns Eldjárns – en hann var þá meðeigandi í fyrirtækinu – og kvað upp úr um það, að hann vildi ekki bera ábyrgð á limlestingum og barsmíðum. Friðsamur maður, Ingólfur. Það endaði með því að Mjölnir fór héðan ófermdur og allslaus.

Eftir þennan sigur voru menn orðnir borubrattari. Næst stóð til að skipa út fiski frá Neðsta. Þeir höfðu mikinn viðbúnað. Höfðu slegið upp girðingu þvert yfir tangann frá bræðsluhúsi (sem nú er horfið) þvert yfir eyrina í flæðarmálið Sundamegin. Yfir hana skyldi enginn komast nema fuglinn fljúgandi. Að þessu gerðum við mikið grín. Nú vildi svo til, að meirihluti okkar í bæjarstjórninni var nýbúinn að kaupa Hæstakaupstaðareignina þar sem áður var Tangsverslun. Þeir höfðu leigt hana Natan & Olsen sem hafði uppskipun og verkun á togarafiski úr Hávarði Ísfirðingi. Þeir greiddu uppsett kaup, svo að þar var ekki verkfall. Svo er það að 70 manns eru að vinna við að landa úr Hávarði Ísfirðingi þegar kemur norskt skip sem á að taka fiskinn úr Neðsta. Þá var hér Jón Eðvald, norskur konsúll. Hann var einn af framámönnum úr kaupmannastétt, sem reyndar var okkur verkfallsmönnum hliðhollur. Við vorum búnir að semja við hann um að hann skyldi láta skipstjórann á norska dallinum flauta þegar hann flytti sig frá bæjarbryggjunni niður eftir vegna útskipunarinnar, og við það stóð hann. Um leið og flautað var þustu allir frá uppskipun úr Hávarði og niður í Neðsta. Var þá lítið hald í girðingunni, því að við fórum yfir hana sem ekkert væri og stöðvuðum alla útskipun. – Norska skipið varð að snúa slyppifengt heim á leið. Aftur unnu verkfallsmenn fullan sigur. Eins og ég sagði áðan hafði þetta mikil áhrif í bæjarlífinu; jók samheldni í verkalýðsfélaginu og sýndi mönnum hvað hægt var að gera með samstilltu átaki. –

DEILA