Súðavík: hreppurinn hefur greitt 20 m.kr.

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavík segir að íbúðirnar fimm sem sveitarstjórn hefur ákveðið að byggðar verði,  verði byggðar í nafni óstofnaðs félags – “Fasteignafélags Súðavíkurhrepps”.

„Greidd hefur verið útborgun í verkið og verður um sinn framlag hreppsins, 20 mkr. Stefnt er að því að þynna út beinan eignarhluta í verkefninu og í raun ekki stefnan að hreppurinn eigi allar íbúðirnar og alls ekki með beinni aðkomu.“

Kynnt hefur verið að fasteignir verði seldar á móti þessu húsnæði sem mun taka við hlutverki íbúða m.a. á Hlíf II, eftir því sem við á.  Bragi Þór segir að verkefnið allt taki mið af því að uppbygging falli að nýjum lánaflokki og reglugerðarbreytingu sem lýtur að Íbúðalánasjóði – uppbyggingu á köldum svæðum.

hefur ekki áhrif á hafnarframkvæmdir

„Miðað við áætlanir okkar þá verður þetta verkefni ekki til þess að skerða fjárhag hreppsins að því marki að hafa áhrif á getu til fjárfestinga til lengri tíma. Ekki er stefnt að því að greiða út í hönd af lausafé fyrir hafnarframkvæmdir og líklega væri það einsdæmi að sveitarfélög séu það vel sett að geta ráðist í slík stórverkefni án lántöku.

Ég geri ráð fyrir því að þegar til kemur, muni fjárhagur sveitarfélagsins metinn og fjárfestingageta til þess að mæta uppbyggingu tengdri vegferð með Íslenskum kalkþörungi.

Miðað við öll áform og hugsanlegar tímasetningar mun Súðavíkurhreppur standa vel þegar og ef verkefnið hlýtur náð.“

 

DEILA