Súðavík: akið gætilega gegnum þorpið

Ágætu ökumenn og vegfarendur sem leggja leið sína um Djúpveg!

Súðavíkurþorp stendur við Álftafjörð og er í alfaraleið þegar kemur að umferð milli Ísafjarðarbæjar og Reykjavíkur. Raunar er það öll umferð þessa dagana milli norðurfjarðanna og suður úr, enda er vart hægt að kalla heiðarnar vegi þegar nálgast Arnarfjörð.
Ætla má að meginþorri umferðar um þorpið sé þannig tilkominn, en talsverður fjöldi bíla fer hér um hvern dag. Þungaflutningar eru áberandi og eru gott merki um að það er líf og atvinna hér á svæðinu. Aðföng koma hér um svo og afurðir og farþegar suður, líklegast alla leið til Reykjavíkur og líklega lengra.
Hámarkshraði um Súðavíkurþorp er 50 km/klst. og er það alla leið frá aðkomu að þorpi við Kolbeinslæk að Langeyri innan þorps. Það er hins vegar misbrestur á því að þetta sé virt, enda þorpið talsverður spotti. Unnt er að spara í ferðatíma kannski hálfa mínútu með því að keyra hér um á 80 km/klst. eða jafvel um eina mínútu ef betur er gert, kannski allt að 100 km/klst. Einhvern veginn svona hljóta ökumenn að hugsa þetta þegar farið er yfir hámarkshraða um þorpið. Sumir sem fara hér um virðast svona tímabundnir.

Til umhugsunar.

Þar sem ég sit við vinnu mína hér flesta daga vikunar, er útsýni mitt yfir veginn hér fyrir neðan barna- og leikskólann í Súðavík. Engin gangbraut er hér yfir veginn né sérstök umferðarljós eða hraðahindranir. Börnin eru daglangt við veginn vegna skóla og þau eru fæst með þroska til að meta fjarlægð og hraða ökutækja í samhengi, enda mun sá eiginleiki ekki þroskaður fyrr en um 12 ára aldur.
Hafið það í huga, ekki síst þið sem akið og viljið spara ykkur milli 30 og 60 sekúndur við það að aka um þorpið okkar. Því miður hef ég horft upp á ökumenn stórra ökurtækja með vagna (trailer) flauta á krakka við kirkjuna þar sem hann náði ekki að stoppa með þann farm sem hann flutti, en notaði flautuna til þess að koma börnunum frá veginum. Hann var talsvert yfir 50 km/klst. þrátt fyrir að ég hafi ekki innbyggðan hraðamæli, það fór ekki milli mála. Svo bætist við þetta hálka og skammdegi.
Hugsum þetta aðeins í samhengi. Ég hef þegar óskað aðkomu lögreglu við að vera sýnilegri og dugleri að hraðamæla hér í þorpinu, og minni á að allar sektir vegna hraðaksturs hafa stórum hækkað sl. sumar.
Flestir ökumenn eru þó til fyrirmyndar eins og við öll, gæta reglna 95% af tímanum. Höldum því áfram.

Bragi Þór Thoroddsen Sveitarstjóri Súðavíkurhrepps

DEILA