Söngvaseiður frumsýndur í gær í Bolungarvík

Frumsýning á söngleiknum Söngvaseið í uppsetningu Leiklistarhóps Dóru Jónasdóttur var í Félagsheimilinu í Bolungarvík í gær. Uppselt var á sýninguna og því fjölmenni í salnum.

Áhorfendur voru almennt mjög hrifnir af sýningunni en í salnum var fólk á öllum aldri. Yngstu gestirnir voru þriggja til fjögurra ára og elstu gestirnir um og yfir nírætt.
Óhætt er að segja að sýningin hafi tekist vel. Ungur drengur í áhorfendahóp hrópaði: „syngiði aftur“, þegar börn Von Trapp höfuðsmanns höfðu nýlokið við söng. Áhorfendum fannst almennt góð samhæfing í hópsöng og aðdáunarvert hvernig hugaðir ungir einsöngvarar nutu sín við söng.
Einn af elstu áhorfendum í sal var á táningsaldri þegar seinni heimsstyrjöldinni lauk og tengdi vel við söguefnið og var stórhrifinn af frammistöðu ungu leikaranna. Hann hafði orð á að þeir Einar Geir (Georg Von Trapp) og Kristinn Hallur (Max frændi) væru skýrmæltir og stórskemmtilegir í sínum hlutverkum. Þeir ásamt Írisi Emblu (Frú Schrader) og Klöru Líf (María) voru góður stuðningur við aðra unga leikara sem voru einlæg í sínum hlutverkum.

Dóra Jónasdóttir sér um leikstjórn, hljóð og ljós og hefur enn og aftur gefið börnum á svæðinu tækifæri til að stíga á svið og blómstra og dafna í leik og söng. Þetta er sýning sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.
Næsta sýning er í kvöld og þá er uppselt.
En á laugardag og sunnudag eru sýningar kl. 13 og 17. og miða er hægt að panta á doruleiklist@gmail.com og í síma 8498794

Ljósmyndari Ásgeir Helgi Þrastarson

DEILA