Rekstri í Reykjanesi hætt ?

Jón Heiðar Guðjónsson hjá Ferðaþjónustunni Reykjanesi við Ísafjarðardjúp sendi bæjarstjórn Ísafjarðar nýlega bréf vegna nýtingar á jarðhitaréttindum og nýlegs úrskurðar þess efnis.

Forsaga málsins er sú að Úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun Orkustofnunar frá 8. október 2018 um að veita Ferðaþjónustunni í Reykjanesi leyfi til nýtingar á jarðhita í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp.
Í málinu var deilt um þá ákvörðun Orkustofnunar frá 8. október 2018 að gefa út nýtingarleyfi til fyrirtækisins Ferðaþjónustunnar Reykjanesi ehf. á jarðhita í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp þar sem fyrirtækið rekur ferðaþjónustu í mannvirkjum sínum á lóð fyrrum Héraðsskólans í Reykjanesi. Að baki þeim ágreiningi sem mál þetta snýst um eru deilur milli aðila um eignarrétt og nýtingarrétt á jarðhitaréttindum. Ísafjarðarbær er eigandi nefndrar lóðar og hefur gert grunnleigusamning um hana við leyfishafa. Orkubú Vestfjarða telur sig eiga jarðhitaréttindi þau sem um ræðir á grundvelli afsals Ísafjarðarbæjar, dags. 1. desember 1978, auk þess sem Orkubúið eigi borholu þá sem nýta eigi.

„Nú er svo komið að Ferðaþjónustan Reykjanesi ehf. hefur ekki lengur leyfi til notkunar á heitu vatni og á því engan annan kost en að hætta rekstri,“ segir í bréfinu.

Í bréfinu segir að sundlaugin á staðnum sé hituð með sjálfrennandi heitu vatni sem annars rynni ónýtt til sjávar. Hingað til hefur ekkert verið greitt fyrir heita vatnið en að mati Ferðaþjónustunnar, sem stofnuð var árið 1997, væri reksturinn óhugsandi ef greiða þyrfti fyrir það.

Þá er kvartað yfir því að sveitarfélagið hafi ekki svarað eftir að úrskurðurinn féll. „Okkur hefur ekki tekist að ná sambandi við bæjarstjórann þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir með símhringingum, skilaboðum og tölvupóstum.“ Bréfið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Ísafjarðar á mánudag og verður Jóni Heiðari boðið að mæta fund ráðsins.

DEILA