Lífsgæðasamning fyrir öryrkja

Á Vestfjörðum eiga heima samtals rúmlega 360 einstaklingar með 75% örorkumat og endurhæfingarmat.  Þetta eru karlar og konur á ýmsum aldri sem búa við skerta starfsorku vegna andlegra eða líkamlegra sjúkdóma, áfalla eða slysa. Aðstæður þessa fólks eru æði misjafnar, bæði persónulega og félagslega.  Eitt á þetta fólk þó sennilega sameiginlegt sem hópur.  Enginn hefur valið sér þetta hlutskipti og allir vildu vera í annarri stöðu.

Ójöfnuður

Öryrkjar hafa misserum saman leitað eftir sanngjörnum leiðréttingum á kjörum sínum, að dregið sé úr hróplegum ójöfnuði þannig að hver og einn geti búið við sæmandi atlæti, félagslega og fjárhagslega.  Þeir krefjast lífskjarasáttmála eins og annað fólk í samfélaginu.  Þeir vilja vera þátttakendur, veitendur og neytendur á öllum stigum og á eigin forsendum.

Á vettvangi stjórnmálanna eru kjör og viðmót gagnvart öryrkjum vissulega talsvert til umfjöllunar um þessar mundir en í verki þokast lítið.  Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár er enn eitt reiðarslagið,  gefur öryrkjum enga nýja von. Þrátt fyrir endurteknar og hástemmdar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, hlý orð og fögur loforð, þá verður öryrkjum boðið upp á það sama árið 2020, áfram kalda sturtu.

Starfshópur félagsmálaráðherra, skipaður ágætu fólki skilaði af sér skýrslu í vor með tillögum en engri niðurstöðu.  Traust á milli aðila skorti, tortryggni talsmanna öryrkja réði því að ekki var hægt að ljúka stórum áfanga.

Starfsgetumat

Skýringar ráðherra á töfum á umbótum gagnvart öryrkjum voru lengi framan af þær, að unnið væri að kerfisbreytingum með svokallað starfsgetumat að leiðarljósi.  Samkvæmt skilgreiningu úr fyrrnefndri skýrslu ráðherra er starfsgetumat mat á getu einstaklings til starfa að gefnum tilteknum kröfum og við tilteknar aðstæður.  Öryrkjum finnst skorta á trúverðugleika þessarar hugmyndafræði, hvort sem það snýr að stjórnvöldum eða vinnumarkaði. Þeir óttast að raunverulegir hagsmunir þeirra verði fyrir borð bornir. Vísað er til misjafnrar reynslu annarra þjóða og m.a. til þekktrar breskrar heimildamyndar sem sýnd var hér á landi. Hugtakið starfsgetumat eitt og sér hefur öðlast neikvætt inntak í hugum flestra.

Lífsgæðamat

Stjórnvöld þurfa að bregðast við á enn ferskari og sveigjanlegri hátt en hingað til í samskiptum við öryrkja og hafa hugfast að orðfæri og inntak skiptir máli. Hugtakið lífsgæði ætti að vera leiðarstef.

Fyrir hóp öryrkja getur mat á getu til starfa í atvinnulífinu verið hluti af bættum lífsgæðum en það gildir ekki um alla.  Við eigum því miklu frekar að ræða um lífsgæðamat fremur en bara starfsgetumat þegar þessi málefni öryrkja eru annars vegar.

Stjórnvöld þurfa að flýta för, skapa traust og ráðast í gerð raunverulegs lífsgæðasamnings við öryrkja.  Fyrir því munum við jafnaðarmenn áfram berjast sem hingað til.

Guðjón S. Brjánsson, alþingismaður

DEILA