Leifur Ýmir Eyjólfsson: e-ð fjall

Sýning Leifs Ýmis Eyjólfssonar e-ð fjall í Gallerí Úthverfu / Outvert Art Space á Ísafirði var opnuð nýlega að honum viðstöddum. Sýningin verður opin til 8. desember 2019.

 

Leifur fæddist á níunda áratug síðustu aldar og býr og starfar á Íslandi. Hann útskrifaðist frá Listaháskólanum og hefur sýnt við ýmis tækifæri bæði hér heima og erlendis. Hann hefur fengið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín. Í list sinni fæst hann aðallega við innsetningar og annað.

 

Sýningin í Úthverfu er innseting sem er unnin að mestu á staðnum í samvinnu við Fánasmiðjuna og FabLab. Sérstakar þakkir fá Örn Smári í Fánasmiðjunni og Þórarinn Bjartur Breiðfjörð hjá FabLab á Ísafirði.

 

Á sýningunni eru þrjú textaverk, á langveggjum gallerísins eru stór silkiþrykk á striga. Á öðru stendur skrifað e-ð fjall og á hinu e-ð annað fjall. Fyrir enda rýmisins er þriðja textaverkið þar sem textinn e-ð enn annað fjall er fræst í spónaplötu. Platan er lökkuð með glæru lakki og litur plötunnar hefur fengið heitið alýðuhátíðarlitur.

 

Stærð verkanna og hlutföll í rýminu í samspili við textana framkalla skynjun sem er ekki ólík tilfinningunni að vera staddur í löngum djúpum firði.

DEILA