Kaldreyktur lax og silungur frá Ísafirði

Fyrirtækið Ísfirðingur á Ísafirði hefur hafið framleiðslu á kaldreyktum laxi og silungi sem og graflaxi. Fyrirtækið rekur Jónas Hallur Finnbogason sem hefur unnið að því í tvö ár að fullkomna uppskriftirnar.Í sjónvarpsþættinum Landanum síðast liðið sunnudagskvöld sagði Jónas frá framleiðslunni

Ísfirðingur notar nýstárlegar aðferðir til að reykja fiskinn, með köldum reykvökva frá Danmörku. „Trjákurlið sem við notum er brennt í reykofna. Inni í ofninum er eimingartæki og þar er reykurinn þéttur og hann fellur í vökva og þegar hann kemur í vökvan þá fer hann á rannsóknastofu og hreinsaður, tjaran er hreinsuð frá,“ útskýrir Jónas Hallur.

Vökvanum er blandað saman við vatn, salt og rósamarínextrakt og haldið við fjórar gráður svo er lax og silungur látinn liggja í leginum. „Þetta er búið að taka mig tvö ár. Þessi kokteill. Ef ég breyti honum aðeins, þá er ég búinn að breyta öllu,“ segir Jónas Hallur.

Uppgangur í fiskeldi á Vestfjörðum var meðal þess sem hvatti Jónas Hall til að fara af stað með Ísfirðing og allur fiskurinn kemur úr sjókvíum vestfirskra fjarða.

DEILA