Jökulfirðir: beðið eftir sjávarútvegsráðherra

Upplýsingafulltrúi Sjávarútvegsráðuneytisins segir að ráðuneytið hafi ekki tekið ákvörðun um hvort óskað verði eftir burðarþolsmati á Jökulfjörðum.  Fyrir liggur að Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar segir að samkvæmt lögum ákveði ráðherra hvort svæði verði burðarþolsmetin.

Ljóst er af þessum svörum að það þarf ákvörðun Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegsráðherra  til þess að meta burðarþol Jökulfjarða og fá mat á því hvort og þá í hve miklum mæli  mætti stunda laxeldi í fjörðunum. Fyrir liggur burðarþolsmat fyrir Ísafjarðardjúpið að öðru leyti og er það upp á 30 þúsund tonna framleiðslu á ári.

Hafdís Gunnarsdóttir, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar vildi ekki  að svo stöddu svara til um afstöðu bæjarráðs til málsins og kvaðst þurfa ræða það við aðra í bæjarráðinu.

Í apríl 2016 ályktaði bæjarráðið gegn fiskeldi í Jökulfjörðum og sagði í samþykktinni að það teldi „algerlega óhugsandi að úthluta leyfum án þess að ítarleg vinna með íbúum, landeigendum og öðrum hagsmunaaðilum hafi farið fram“ en jafnframt segir að bæjarráðið fagni fiskeldi í Ísafjarðardjúpi og styðji þau áform.

 

 

DEILA