Halla Signý: vill fræðslu um vefjagigt

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm hefur endurflutt tillögu til þingsályktunar ásamt sex öðrum þingmönnum úr fjórum flokkum um fræðslu um vefjagigt og endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu.

Lagt er til að  heilbrigðisráðherra verði falið að beita sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagigt og láta fara fram endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu með það að markmiði að styrkja greiningarferlið og bjóða upp á heildræna meðferð byggða á niðurstöðum gagnreyndra rannsókna.

Í greinargerð segir að árið 1993 hafi vefjagigt verið formlega skilgreind sem sjúkdómur af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Töluverðan tíma tók uns sjúkdómurinn öðlaðist almenna viðurkenningu innan læknasamfélagsins  Í gegnum tíðina hafa fordómar verið tengdir sjúkdómnum sem mikilvægt er að eyða með markvissri fræðslu um hann.

Þá segir: „Vefjagigt getur lagst mjög hart á fólk og dregið verulega úr lífsgæðum og færni til daglegra athafna. Vefjagigt hrjáir fólk á öllum aldri en er algengust hjá konum á miðjum aldri. Margar erlendar rannsóknir sýna að lífsgæði þessara einstaklinga eru oft mjög slök, eða talsvert fyrir neðan það sem almennt gerist í samfélaginu. Birtingarmyndir sjúkdómsins eru margvíslegar. Hjá sumum eru einkennin tiltölulega væg og koma fram seint á ævinni en hjá öðrum eru þau hastarleg og koma fram strax á unglingsárum. Á vægu stigi er fólk með verki sem það ræður að mestu við sjálft og getur haldið nær fullri færni og vinnugetu. Þegar einkennin ágerast leitar fólk gjarnan til lækna vegna verkja, þreytu og svefnleysis. Þegar sjúkdómurinn er á slæmu stigi er fólk undirlagt af verkjum frá morgni til kvölds og færni þess skerðist verulega. Það er oft ekki fyrr en þá sem fólk fær fulla athygli lækna og kerfisins og brugðist er við vandanum af festu. En því miður er hætta á að einstaklingar með vefjagigt á slæmu stigi nái minni bata og allt of margir verða óvinnufærir.“

Í úttekt embættis landlæknis um aðgengi að göngudeildarþjónustu vegna gigtarsjúkdóma, sem birt var í ágúst 2019, kemur fram það mat landlæknis að biðtími eftir þjónustu sé langt umfram viðmiðunarmörk og að skortur á viðeigandi heilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni með vefjagigt væri sérstakt áhyggjuefni.

 Flutningsmenn telja brýnt að núverandi skipulag heilbrigðisþjónustu vegna vefjagigtar verði endurskoðað og mikilvægt að heilbrigðisráðherra komi af stað fræðslu til almennings um vefjagigt. 

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!