Flateyri: „Við teljum að tillaga okkar skapi mestu tekjurnar“

Gunnar Þór Gunnarsson, stjórnarformaður Aurora Seafood, segist telja að tillaga samstarfshóps Íslandssögu, Klofnings, Aurora Seafood og Vestfisks í Súðavík um ráðstöfun sérstaka byggðakvótans skapi mestar tekjur fyrir svæðið.  Áformum fyrirtækjanna fylgi að til verði ný störf á sjó og í landi á Flateyri og styrki líka grundvöll fyrirtækja á Suðureyri og í Súðavík.

Á grundvelli tillögunnar hefur aflamarksnefnd Byggðastofnunar komist að þeirri niðurstöðu að mæla með því að fyrirtækin fái úthlutað sérstökum byggðakvóta Flateyrar til næstu sex ára.

Stjórn Byggðastofnunar ákvað á föstudaginn að fresta ákvörðun og gefa umsækjendum kost á að uppfæra umsóknir sínar og kynna þær frekar fyrir Byggðastofnun.

Gunnar Þór segir að hvorki hans fyrirtæki né Klofningur skuldi Byggðastofnun neitt og segir að mat Byggðastofnunar á ágæti umsókna fyrirtækjanna ráðist ekki af því, heldur af því sem ætlunin er að gera.

Aurora Seafood gerir út tvo báta á sæbjúgnaveiðar. Fyrirtækið keypti nýlega togarann Valbjörn og hyggst nota hann til bolfiskveiða fyrir Flateyri en hann er nú gerður út á sæbjúgnaveiðar. Gunnar Þór segir að fyrirtækið hyggist fara í miklar fjárfestingar og byggja upp starfsemi hér fyrir vestan. “Það mun kosta okkur nokkur hundruð milljónir króna að endurbyggja aðstöðu í landi á Flateyri og kaupa búnað.”

Í samstarfi við Klofning er ætlunin að byggja upp á Flateyri framleiðslu á gæludýrafóðri og stunda sæbjúgnaveiðar og -vinnslu.

Gunnar Þór segir að staða lítilla fiskvinnsla sé afleit við núverandi aðstæður. Það þurfi að byggja upp samstarf nokkurra fyrirtækja, og ná upp mikilli hagkvæmni, til þess að skapa grundvöll fyrir fiskvinnslu.  “Ég tel að okkar umsókn sé sú besta fyrir Flateyri, jafnvel þótt fiskvinnslan verði á Suðureyri. Ég tel líka að okkar umsókn hafi góð áhrif á svæðinu í heild” segir Gunnar Þór.

Gunnar Þór, sem er frá Skagaströnd, segist þekkja vel aðstæður á fámennum landssvæðum. Hann segir að möguleikar séu fyrir hendi til þess að byggja upp arðbæra starfsemi á Vestfjörðum og að fyrirtæki hans sé reiðubúið til að gera það sem til þarf, þ.m.t. fjárfesta. Hins vegar hafi hann ekki áhuga á að dragast inn í deilur milli byggðarlaga og fyrirtækja.

 

DEILA