Flateyri: lagt til að Íslandssaga fái sértæka byggðakvótann

Starfsmenn Byggðastofnunar leggja til að Íslandssaga og samstarfaðilar hennar fái 400 þorskígildistonna sérstakan byggðakvóta fyrir Flateyri sem Byggðastofnun úthlutar til næstu sex fiskveiðiára. Samtals er því úthlutað 2.400 þorskígildistonnum.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar gerir ekki athugasemdir við tillöguna sem fer nú fyrir stjórn Byggðastofnunar. Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri segir að málið verði tekið fyrir á stjórnarfundi þann 15. nóvember n.k.

Í bréfi Byggðastofnunar til bæjarráðs Ísafjarðarbæjar segir að lokinni yfirferð aflamarksnefndar Byggðastofnunar  hafi umsóknir Íslandssögu og samstarfsaðila annars vegar, og ÍS47 og samstarfsaðila hins vegar verið metnar þær sem myndu skila samfélaginu mestum ávinningi þegar litið er til atvinnuuppbyggingar.

„Ákveðið var að kanna hjá þessum tveimur aðilum hvaða áhrif það hefði á umsóknir þeirra ef aflamarki Byggðastofnunar yrði skipt jafnt á milli aðila. Svör bárust 7.nóvember og töldu báðir umsækjendur ekki forsendur fyrir skiptingu aflamarksins. Það væri forsenda umsókna þeirra að þeir væru að sækja um 400 þorskígildistonn. “

Að fengnum þessum svörum ákvað aflamarksnefndin að leggja til að Íslandssaga fengi kvótann og að öðrum umsóknum yrði hafnað.

DEILA