Fjórðungsþing: 90% fjölgun sjúkrafluga- tafarlausar aðgerðir

Fjórðungsþing Vestfirðinga ályktaði um síðustu helgi um sjúkraflug. Skorar þingið á stjórnvöld að grípa tafarlaust til aðgerða vegna sjúkraflugs á Vestfjörðum.

„Eins og staðan er í dag er aðeins ein sjúkravél sem sinnir öllu landinu og hefur Ríkisendurskoðun ítrekað bent á að viðbragðstími hennar hefur lengst fyrir Vestfirði á sl. árum. Á sama tíma hefur ríkisvaldið dregið úr sérhæfðri heilbrigðisþjónustu á landsbygginni og þá hefur fjöldi sjúkrafluga aukist frá Vestfjörðum um 90% á sl. 5 árum. Sérhæfð bráðaþjónusta er fyrst og fremst veitt í Reykjavík og í slíkum tilfellum skiptir hver mínúta við sjúkraflutninga lífsspursmáli.

Ljóst er að núverandi fyrirkomulag sjúkraflugs er ekki nóg til að tryggja öryggi fólks á Vestfjörðum. Þurfa stjórnvöld að tryggja aðkomu Landhelgisgæslunnar að almennu sjúkraflugi og staðsetja sérútbúnar sjúkraþyrlur á landsbyggðinni, þar á meðal á Vestfjörðum. Svona stórt öryggismál á að vera sjálfsögð krafa íbúa og gesta á Vestfjörðum.“

DEILA