Engar veiðar – engin vinnsla – bara kvótaleiga 250 milljónir króna

Frá því er sagt á Aflafréttum að fyrirtækið Eskja á Eskifirði, sem áður hét Hraðfrystihús Eskifjarðar og var umfangsmikið í útgerð og fiskvinnslu, eigi nú ekkert skip sem veiði bolfiskinn og starfræki enga fiskvinnslu, en ráði engu að síður yfir 4.240 þorskígildistonnum af fiskikvóta, þar af 3.650 tonnum af þorski.

 

Kvótinn er vistaður á  uppsjávarskipinu Jón Kjartanssyni SU 311. Engin afli er skráður á skipið  á þessu fisveiðiári en hins vegar er skráð umfangsmikil kvótaleiga það sem af er fiskveiðiári.

Alls hafa um 900 tonn af þorski verið leigð frá Jóni Kjartanssyni SU og um 250 tonn af ýsu.  Meðalverð á leigðum þorkskvóta frá 1. september er 241 kr/kg og fyrir ýsu er meðalverðið 116 kr/kg samkvæmt því sem fram kemur á vef Fiskistofu. Samkvæmt því gætu leigutekjurnar af þorkskvótaleigunni verið um 217 milljónir króna og af ýsukvótaleigunni um 30 milljónir króna eða samtals um 247 milljónir króna. Er þó aðeins rétt liðlega fjórðungur af kvótanum leigður. Kvótaleigan er aðgangseyrir sem leigutakinn greiðir kvótahafanum fyrir réttinn til að veiða fiskinn. Samkvæmt reglugerð greiðir kvótahafinn til ríkisins  fram til áramóta 13,80 kr/kg af þorski og 16,15 kr fyrir leyfið til að veiða 1 kg af ýsu.

Nemur veiðigjaldið 5,8% af meðalleiguverðinu af hverju þorskkílói og 13,9% af leiguverðinu í ýsu. Verða þetta að teljast afar ábatasöm viðskipti fyrir Eskju.

DEILA