Byggðastofnun: ákvörðun á morgun

Frá Suðureyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson

Stjórn Byggðastofnunar kemur saman á morgun og mun þá taka ákvörðun um ráðstöfun sérstaka byggðakvótans til Flateyrar. Um er að ræða 400 þorskígildistonn á ári í sex ár eða samtals 2.400 tonn.

Pétur Friðjónsson, Byggðastofnun segir að það ætti að vera hægt að upplýsa nánar um umsóknirnar eftir að úthlutun er lokið. Bæjarins besta hefur óskað eftir matsblöðunum þar sem lagt var mat á umsóknirnar og þær bornar saman.

Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri Íslandssögu í Súgandafirði vill ekkert tjá sig um málið fyrr en Byggðastofnun hefur lokið úthlutun sértæka byggðakvótans.  Samstarfsaðilar fiskvinnslunnar Íslandssögu eru Vestfiskur ehf. Súðavík, Klofningur ehf. á Suðureyri og Aurora Seafood ehf í Súðavík, sem gerir út tvö báta til veiða á sæbjúgum.

Bæjarráðið fékk ófullnægjandi upplýsingar

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar sagði í umsögn sinni um sérstaka byggðakvótann að það gerði ekki athugasemdir við úthlutunina. Hafdís Gunnarsdóttir, formaður bæjarráðs segir að ástæðan sé sú að bæjarráðið hafði ekki forsendur til að taka skýra afstöðu.

„Við fáum ekki nægileg gögn frá Byggðastofnun til að mynda okkur almennilega skoðun á málinu og fengum þar að auki afar skamman tíma til að veita þeim svör. Þar sem Ísafjarðarbær á enga aðkomu að ákvarðanatökunni, fyrir utan að veita umsögn, er það mín persónulega skoðun að Ísafjarðarbær eigi að fá að ráða því hvort umsögn sé send eða að Byggðastofnun veiti okkur framvegis ítarlegri upplýsingar. Ég efast ekki um faglegt ferli Byggðastofnunar við þess háttar úthlutanir á gæðum, en tel að það mætti upplýsa sveitarfélögin betur.“

 

DEILA