Bolungavík: vilja gera upp Aðalstræti 16

Bæjarráð Bolungavíkur hefur falið bæjarstjóra að sækja um styrk úr húsafriðunarsjóði til Minjastofnunar vegna Aðalstrætis 16. Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri er jafnframt formaður Húsaverndarfélags Bolungavíkur.

Jón Páll sagði í samtali við Bæjarins besta að ætlunin væri að semja við arkitekt og teikna húsið upp og gera tillögu um endurbætur þess.

Fyrir 5 árum var húsið skemmt af ásettu ráði í því skyni að fá það fjarlægt. Var því borið við að húsið skapaði blint horn fyrir akandi umferð.  Gert var við skemmdirnar til bráðabirgða og húsinu lokað.

Húsið var upphaflega reist í Aðalvík 1909 og flutt til Bolungavíkur 10 árum síðar. Eftir því sem Bæjarins besta kemst næst var fyrsta símstöðin í Boungavík í húsinu.

DEILA