Vísindaportið: Að meta efnahagsleg áhrif náttúruhamfara á landbúnaðariðnaðinn

Í Vísindaporti vikunnar föstudaginn 1.nóvember er sjónum beint að landbúnaðinum og er gestur okkar dr. Christa Court. Mun hún í erindi sínu velta því fyrir sér hvernig hægt er að finna aðferð til að meta efnahagslegt tap sem fyrirtæki í landbúnaðargeiranum, og um leið svæðin þar sem þau starfa, geta orðið fyrir af völdum náttúruhamfara. Tekið verður dæmi frá afleiðingum fellibylsins sem nýlega gekk á land í Flórída í Bandaríkjunum.

Landbúnaðargeirinn verður reglulega fyrir skaðlegum áhrifum í kjölfar náttúruhamfara. Ræktað land og búfénaður tapast auk afurða. Byggingar, búnaður, girðingar og aðrir innviðir verða fyrir skemmdum eða eyðileggjast. Slík tjón hafa áhrif bæði á fyrirtækin og samfélögin sem háð eru landbúnaði. Máli skiptir með hvaða hætti gögnum um slík tjón er safnað, hvernig þau eru greind og birt. Standa hagsmunaaðilar reglulega frammi fyrir fjölmörgum áskorunum við úrvinnslu mála, t.a.m. vegna þess að upplýsingaöflun er ofaukin eða ósamræmd, eða skýrslugerð ruglingsleg. Einkennandi fyrir landbúnaðinn eru m.a. tímabundnar sveiflur í framleiðslunni sem gerir það að verkum að aðferðir sem notaðar eru til að meta tjón í öðrum geirum samfélagsins henta ekki. Frekari upplýsingar er að finna í samantekt á ensku.

Erindinu verður streymt á netinu á YouTube rás Háskólaseturs og hefst útsending kl. 12:10.
Dr. Christa Court kennir við matvæla- og auðlindadeild Flórída-háskóla (UF), en hún tengist einnig öðrum stofnunum og deildum UF-háskólans, svo sem auðlinda- og umhverfisdeild og vatnastofnun. Hefur hún verið viðriðin mörg rannsóknarverkefni og liggur eftir hana fjöldi vísindalegra greina. Christa Court lauk gráðu á bakkalárstigi í hagfræði og spænsku frá Middle Tennessee State-háskólanum, meistaragráðu í hagfræði og í framhaldinu doktorsgráðu í sama fagi frá Háskólanum í Vestur-Virginíufylki.

Vísindaportið fer að vanda fram í kaffistofu Háskólaseturs í Vestrahúsinu Ísafirði kl. 12:10-13. Erindið verður að þessu sinni flutt á ensku.

Allir velkomnir.

DEILA