Verðmæti laxeldis – svipað og þorskstofninn

Frummælendurnir Jón Þór Ólason, ragnar Jóhannsson og Einar K. Guðfinnsson. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Útflutningsverðmæti eldislax á Íslandi gæti orðið svipað og útflutningsverðmæti á þorskafurðum ef framleiðslan nær burðarþolsmati Hafrannsóknarstofnunar eins og það stendur núna. Þetta kom fram í erindi Einars K. Guðfinnssonar, stjórnarformanns Landssambands fiskeldisstöðva á málþingi Pírata í Norræna húsinu í Reykjavík í gærkvöldi.

 

Framleiðslan gæti náð um 122 þúsundum tonna að slægðum laxi ef burðarþolsmetin svæði verða fullnýtt. Miðað er við meðalverð 770kr/kg af afurðum sem eru rauðu súlurnar á stöplaritinu. Einnig er reiknað útflutningsverðmæti miðað við 5% hærra og lægra verð. Fyrsta myndir gefeur útflutningsverðmæti 32 milljarða króna miðað við 42 þúsund tonna framleiðslu. Gert er  ráð fyrir að því verði náð 2020/2021. Næsta mynd sýnir útflutningsverðmætin af 60 þúsund tonna framleiðslu sem gæti náðst 2022 eða fljótlega eftir það. Þau eru talin verða 46 milljarðar króna og sé ársframleiðslan orðin 122 þúsund tonn verður útflutningsverðmætið 94 milljarðar króna. Útflutningsverðmæti þorskafurða eru í dag um 100 milljarðar króna.

 

Það kom einnig fram í erindi Einars að heimsframleiðslan á eldislaxi var 2 milljónir tonna árið 2012. Hún er áætluð verða 2,5 milljónir tonna á þessu ári. Það er 25% aukning á framleiðslunni á aðeins 7 árum. því er spáð að framleiðslan í heiminum fari yfir 3 milljónir tonna eftir þrjú ár. Framleiðslan á Íslandi fer vaxandi og stefnir í að verða 25 þúsund tonn á þessu ári. Það er 1% af heimsframleiðslunni.

Aðrir frummælendur á málþinginu voru Ragnar Jóhannsson, Hafrannsóknarstofnun og Jón Þór Ólason, formaður Stangveiðifélags Reykjavíkur.

DEILA