Vegaframkvæmdir fyrir 17 milljarða króna næstu fimm ár

Frá Dynjandisheiði. Mynd: visir.is

Í samgönguáætlun fyrir árin 2020 – 2024, sem samgönguráðherra kynnti í gær eru vegaframkvæmdir á Vestfjörðum fyrir rúmlega 17 milljarða króna.

Hæst ber 7,2 milljarða króna til 26 km vegagerðar um Gufudalssveit ( Þ-H leið) á árunum 2020 – 2023.  Á næsta ár er 1,5 milljarður króna til framkvæmdanna, þá 2,7 milljarðar króna 2021, 700 milljónir króna 2022 og 2,3 milljarðar króna á árinu 2023.

Næsthæst fjárhæð er til nýs 35 km vegar um Dynjandisheiði 5,8 milljarðar króna. Upphafsfjárveiting er á næsta ári og er 550 milljónir króna. Þá eru rúmur milljarður króna 2021, 800 milljónir króna 2022, 1,4 milljarðar króna 2023 og 2 milljarðar króna 2024. Miðað við þetta fara framkvæmdir varla af stað af neinum krafti fyrr en 2021 og standa yfir í þrjú ár.

Þriðja hæsta fjárhæðin er 3,7 milljarðar króna 2020 til Dýrafjarðarganga, sem er lokafjárveiting en göngin verða tekin í notkun næsta haust.

Framangreindar þrjár framkvæmdir eru allar á Vestfjarðavegi 60 og munu kosta samtals um 25 milljarða króna.

Næsta stór framkvæmd á Vestfjörðum tengist þessum framkvæmdum. Það er nýr 30 km vegur frá Dynjandisheiði niður í Arnarfjörð og þaðan til Bíldudals sem áætlað er að kosti 4,8 milljarða króna. Sú framkvæmd er sett á 2. tímabil samgönguáætlunarinnar, árin 2025-29.

Aðrar framkvæmdir sem finna má á 1. tímabili 2020-2024 eru:

Djúpvegur 61 um Hattardal, 2 km sem vinna á á næsta ári og kostar 350 milljónir króna.

Örlygshafnarvegur 2,1 km vegur um Hvallátur, sem vinna á 2021 og kostar 150 milljónir króna.

DEILA