Upp með Guðmund Hagalín!

Er ekki kominn tími til fyrir Vestfirðinga að endurreisa Hagalín og fara að lesa hann á nýjan leik? Ævifrásagnir hans í mörgum bindum, Séð, heyrt, lesið og lifað, eru til dæmis mjög læsilegar og skemmtilegar og bera vitni um einstakan, vestfirskan karakter. Teikning Ómar Smári Kristinsson í Garðaríki á Ísafirði.

Guðmundur Gíslason Hagalín ólst upp á menningarheimilinu Lokinhömrum í Arnarfirði, fæddur árið 1898 og lést 1985. Hann var kominn af vestfirskum stórbændum og útvegsmönnum. Hagalín stundaði sjó framan af ævi og lagði síðar gjörva hönd á margt, auk þess sem hann var fádæma afkastamikill rithöfundur.

Hann bjó á Ísafirði frá 1928 til 1946 og málaði bæinn rauðan á vegum Alþýðuflokksins, ásamt Hannibal Valdimarssyni, Vilmundi Jónssyni, landlækni og Finni Jónssyni ásamt fleiri góðum mönnum. enda var Ísafjörður kallaður Rauði bærinn á þeim árum. Hagalín var mikill og sterkur áróðursmaður í pólitíkinni. Hann var einhver snjallasti kosningasmali sem um getur hér vestra.

 

Guðmundur Hagalín frétti eitt sinn fyrir kosningar, að gömul kona er Guðrún hét, væri horfin frá því að kjósa. Taldi hann sig eiga víst atkvæði hennar færi hún á kjörstað. Þótti honum nú úr vöndu að ráða en gekk þó heim til hennar og hitti svo á að hún var að elda graut. Þegar hún sér Guðmund bandar hún hendi á móti honum og segir:

“Nei, nú þýðir þér ekkert að koma, Guðmundur, því að ég ætla alls ekki að kjósa í þetta sinn.

”Því trúi því vel,” ansar Guðmundur, „enda var það ekki erindið til þín að tala um kosningar. En mikið er góð hjá þér grautarlyktin.”

Bauð gamla konan þá Guðmundi í bæinn og tóku þau tal saman um daginn og veginn. Loks bað Guðmundur hana að lofa sér að smakka á grautnum en hún dáðist að góðvild hans og lítillæti.

En er þessar samræður höfðu staðið langa stund, sagði Guðmundur:

“Eigum við nú ekki að fara að labba, Guðrún mín?” Og gengu þau svo á kjörstaðinn.

 

Eins og þessi saga bendir til, var Hagalín snillingur. Nú á dögum er Guðmundur Hagalín líklega ekki mikið lesinn höfundur og ætti það að standa Vestfirðingum nær að huga að því að endurreisa þennan stórskemmtilega rithöfund úr Auðkúluhreppi í Arnarfirði. Annað eins hafa þeir nú gert!

        (Úr væntanlegri bók Vestfirska forlagsins: Gamanmál að vestan   Auðkúluhreppur)

DEILA