Tveir á móti í Strandabyggð

Frá Fjórðungsþinginu. Starfsmenn þingsins að störfum. Mynd : Kristinn H. Gunnarsson.

Ásta Þórisdóttir, sveitarstjórnarmaður í Strandabyggð segir í tilkynningu til Bæjarins besta að hún hafi ekki verið á Fjórðungsþingi Vestfirðinga en hafi verið á móti ályktuninni um raforkumál sem samþykkt var með 16 atkvæðum gegn 1. Ásta segir að hún hafi falið Jóni Jónssyni að greiða atkvæði fyrir sína hönd, en Jón greiddi atkvæði gegn ályktuninni.

Ekki var beitt ákvæði um vægisatkvæði í atkvæðagreiðslunni um raforkumál heldur hafði hver fulltrúi eitt atkvæði.  Við vægisatkvæðagreiðslu fer atkvæðavægi hvers sveitarstjórnarmanns eftir íbúafjölda þess sveitarfélags sem hann er fulltrúi fyrir. Strandabyggð fór með 749 atkvæði af 9763. Hver sveitarstjórnarmaður í Strandabyggð hafði því 150 atkvæði við vægisatkvæðagreiðslu. Fulltrúarnir tveir sem hafa staðfest andstöðu sína við raforkuályktunina fóru samtals með 3% atkvæðanna þegar vægisatkvæðagreiðslu var beitt.

Þá hefur Guðfinna Hávarðardóttir  greint  Bæjarins besta frá því að hún hafi setið hjá í atkvæðagreiðslunni. Oddvitinn Jón Gísli Jónsson sat einnig hjá.  Fimmti sveitarstjórnarmaðurinn í Strandabyggð er Aðalbjörg Signý Sigurvaldadóttir varaoddviti. Hún hefur ekki svarað fyrirspurn Bæjarins besta um afstöðu sina á Fjórðungsþinginu.

Öllum fimm sveitarstjórnarmönnum í Strandabyggð var send fyrirspurn 10. október þar sem þeir voru inntir eftir afstöðu sinni til Hvalárvirkjunar.  Enginn þeirra hefur svarað fyrirspurninni.

DEILA