Sundabakki: dýpkun í umhverfismat

Fyrirhugað er að lengja Sundabakka á Ísafirði um 300 metra og dýpka þarf við viðlegukant í allt að 11 metra þannig að stærri skemmtiferðaskip, lengri og með meiri djúpristu, geti lagst að bryggju í höfninni. Taka þarf allt að 500.000 m3 af efni af hafsbotni. Þegar efnistaka nær 150.000 rúmmetrum þarf framkvæmdin að fara í umhverfismat.

Drög að tillögu  að matsáætlun liggur fyrir og hefur skipulags- og mannvirkjanefnd falið skipulagsfulltrúa að kynna drögin fyrir hagsmunaaðilum, umsagnaraðilum og almenningi.

Mæta stækkandi skemmtiferðaskipum

Núverandi dýpi við Sundabakka er 7-8 m og núverandi stálþil er 190 m að lengd.

Markmið Ísafjarðarbæjar er að stækka viðlegukant við Sundabakka á Ísafirði og auka sjávardýpi utan hans þannig að stærri og fleiri skip geti lagst að bryggju. Framkvæmdinni er ætlað að auka fjölbreytni og þjónustu við nýtingu hafnarinnar en einnig auka tekjur hennar.
Þróunin er sú að skemmtiferðarskip eru að stækka og verða lengri og einnig eru horfur á að viðlegutími þeirra sé að aukast þannig að algengara verði að þau stoppi hér í lengri tíma. Einnig er horft til þess að auka möguleika á löndun afla við Sundabakka sem og auka möguleika í vöruflutningum.

Landfylling í Súðavík

Dýpkunarefnið sem um ræðir er líklega að mestu burðarhæfur fínn sandur sem hefur verið notaður sem landfylling á Eyrinni á Ísafirði gegnum tíðina. Dýpkunarefnið verður losað innan við fyrirstöðugarðinn og það nýtt sem fylling undir viðlegukantinn. Áætlað er að um 87.000 m3 af fyllingarefni þurfi undir kantinn. Ráðgert er að nota hluta af uppdælda efninu í hækkun á landi á Suðurtanga á Ísafirði.

Umframefni sem til verður vegna dýpkunar verður nýtt í öðrum framkvæmdum á svæðinu. Gert er ráð fyrir að 250.000 m3 af efninu verði nýttir til landfyllingar á Langeyri við Súðavík í Álftafirði en þar er fyrirhugað að reisa Kalkþörungaverksmiðju.

DEILA