Stefnumótandi byggðaáætlun: smávirkjanir

Súðavík. Mynd: Þorsteinn Haukur.

Forsætisráðherra hefur lagt fram á Alþingi þingsáætlun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018 – 2024. Þar segir að Alþingi feli ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd eftirfarandi stefnu og aðgerðaáætlunar í byggðamálum og að gert verði ráð fyrir framkvæmdinni við gerð fjárlaga hvers árs.

Fyrsti kafli ályktunarinnar fjallar um framtíðarsýn og viðfangsefni og þar segir m.a.:

blómlegar byggðir

Í öllum landshlutum verði blómlegar byggðir og öflugir byggðakjarnar þar sem stuðlað verði að bættum lífskjörum landsmanna með sem jöfnustu aðgengi að grunnþjónustu og atvinnutækifærum óháð efnahag og búsetu. Grunnþjónusta verði veitt íbúum sem mest í nærsamfélagi. Á höfuðborgarsvæðinu verði miðstöð opinberrar stjórnsýslu og miðlægrar þjónustu sem allir landsmenn hafi gott aðgengi að.

Byggðamál verði samþætt við aðra málaflokka eftir því sem við á. Í allri stefnumörkun og áætlanagerð hins opinbera verði áhrif á þróun einstakra byggða og búsetu skoðuð og metin.

viðfangsefni

Helstu viðfangsefni byggðaáætlunar verði að takast á við fækkun íbúa á einstökum svæðum, einhæft atvinnulíf, tæknibreytingar og þróun og aðlögun er varðar einstakar atvinnugreinar, að skilgreina nauðsynlegar mótvægisaðgerðir og aðlögun vegna áhrifa loftslagsbreytinga, að tryggja greiðar samgöngur og aðgengi að þjónustu og bregðast við harðnandi alþjóðlegri samkeppni um fólk og fyrirtæki. Lögð verði sérstök áhersla á svæði sem standa höllum fæti í þessu samhengi.

þrífösun og smávirkjanir

Í tillögunni eru taldar um fjölmargar aðgerðir sem ætlaðar eru til þess að ná settum markmiðum um jafnt aðgengi að þjónustu, jöfn tækifæri til atvinnu og sjálfbærri þróun um allt land.

Settar eru fram þrjár tillögur varðandi raforkumálin.

Lagt er til að setja 400 milljónir króna til að styrkja þríföstun rafmagns í dreifbýli.

Um raforkukerfið segir að auka þurfi orkuöryggi og efla flutningskerfið. Áfram verði unnið að því að liðka fyrir nauðsynlegri uppbyggingu og viðhaldi á flutnings- og dreifikerfi raforku, tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi um land allt til að mæta þörfum almennings og atvinnulífs. Varið verður 60 millónum króna til þess.

Í þriðja lagi er stuðningur við byggingu smávirkjana. Kannað verði  og stutt við  möguleika á aukinni raforkuframleiðslu á landsbyggðinni með smávirkjunum og efla þar með orkuöryggi á landsvísu.

Ekkert er minnst á stærri vatnsaflsvirkjanir í byggðaáætluninni.

Friðlýsing svæða

En hins vegar er tillaga um náttúruvernd og eflingu byggða:

Greind verði tækifæri og ávinningur í héraði af þjónustu sem byggist á nýtingu náttúruverndarsvæða, svo sem í náttúrutengdri ferðaþjónustu. Hugað verði að því að verulegur ávinningur getur falist í friðlýsingu svæða og rekstri þeirra, svo sem með stofnun þjóðgarða eða jarðvanga.

DEILA