Slakt ástand rækjustofna í Arnarfirði og í Ísafjarðardjúpi

Rækja. Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir.

Hafrannsóknarstofnun hefur birt mat sitt á ástandi rækjustofna í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi. Leggur Hafrannsóknastofnun til að leyfðar verði veiðar á 197 tonnum af rækju í Arnarfirði og 568 tonnum í Ísafjarðardjúpi á vertíðinni 2019/2020.

Stofnvísitala rækju í Arnarfirði var nálægt sögulegu lágmarki en yfir skilgreindum varúðarmörkum. Rækjan í Arnarfirði var smærri en undanfarin ár. Mikið var af þorsk- og ýsuseiðum í Arnarfirði og mældist meira af þorski en undanfarin þrjú ár.

Biomass stuðullinn í Arnarfirði er 570 sem er fjórði lægsti stuðullinn frá 1988/89. Síðustu fjögur ár eru einmitt fjögur lægstu árin á þessum tíma. Frá 1988/89 til 2003/04 lagði stonfunin til að veidd yrðu frá 550 – 850 tonn.

Stofnvísitala rækju í Ísafjarðardjúpi var undir meðallagi en yfir skilgreindum varúðarmörkum. Útbreiðsla rækjunnar var að miklu leyti takmörkuð við svæðið innst í Ísafjarðardjúpi. Nýliðunarvísitala rækju var langt undir meðallagi árin 2016–2019. Vísitala þorsks hefur farið lækkandi frá árinu 2012 en magn þorsks var töluvert meira í október 2019 en undanfarin þrjú ár. Vísitala ýsu hefur haldist há frá 2004. Mikið var af ýsuseiðum á svæðinu í október 2019.

Biomass stuðullinn í Ísafjarðardjúpi er 1135 og  er hann hærri en undanfarin þrjú ár en samt einungis um og innan við helmingur þess sem var á árunum fyrir aldamót. Mest var leyft að veiða 3000 tonn 1990.

DEILA