Sértækur byggðakvóti á Flateyri: viðræður hefjast á morgun

Liðinn er rúmur mánuður síðan umsóknarfrestur rann út um sérstakan byggðakvóta á Flateyri. Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar segir að starfsmenn Byggðastofnunar muni eiga fundi með umsækjendum fyrir vestan í byrjun þessarar viku til að fá nánari skýringar á hugmyndum þeirra og áætlunum.  Hann segir að í  framhaldinu megi vænta þess að málið verði sent bæjarstjórn til umsagnar eins og reglur gera ráð fyrir, áður en stjórn Byggðastofnunar tekur að lokum ákvörðun.

Samkvæmt heimildum Bæjarins besta verða fundahöldin á morgun, þriðjudag og að gert er ráð fyrir að stjórn Byggðastofnunar taki málið fyrir á fundi þann 1. nóvember næstkomandi.

Um er að ræða 400 þorskígildi árlega í sex ár eða samtals 2.400 þorskígildistonn, sem úthlutað er endurgjaldslaust.  Verðmætið gæti verið 500 – 600 milljónir króna.

Fimm umsóknir bárust um sérstæka byggðakvótann. Ein þeirra var frá West Seafood og mun vera fallin um sjálft sig eftir að fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota. Eftir standa fjórar umsóknir sem eru frá :

  • Fiskvinnslunni Íslandssögu o.fl.
  • WSG Trading
  • Walvis o.fl.
  • ÍS 47 ehf. o.fl.

Með Íslandssögu á Suðureyri standa Vestfirska í Súðavík, Áróra Seafood og  Klofningur Suðureyri að umsókninni samkvæmt upplýsingum frá Óðni Gestssyni framkvæmdastjóra Íslandssögu.

WSG Trading er fyrirtæki í Garðabæ og stjórnarmaður þess er Wendy Snæland Guðbjartsson. Hún er einnig skráð fyrir öðru fyrirtæki WSG Þingeyri, sem skráð er í Neðsta Hvammi í Dýrafirði, en ekki kemur fram hvort það fyrirtæki standi að umsókninni á Flateyri.

Walvis er í eigu Þorgils þorgilssonar á Flateyri og með Walvis munu vera samkvæmt heimildum Bæjarins besta fyrirtæki í eigu Gunnars Torfasonar, Ísafirði, Kristjáns Andra Guðjónssonar, Ísafirði og Bjartmarz ehf sem gerir út bátinn Ragnar Þorsteinsson ÍS 121.

ÍS 47 er í eigu  Gísla Jóns Kristjánssonar, Ísafirði og var einnig aðili að fyrri samningi. Með honum munu vera aðilar á Flateyri en Gísli Jón vildi ekki veita frekari upplýsingar um samstarfsaðilana að svo stöddu.

DEILA