Samsýning í Gallerí úthverfu Ísafirði

Föstudaginn 27. september kl. 16 opnaði samsýning Karoline Sætre og Rannveigar Jónsdóttur OBSERVE ABSORB í Gallerí Úthverfu / Outvert Art Space á Ísafirði og verður sýningin opin til 27. október.

,,Það er innbyggður skortur í minninu, kannski er það löngunin til að fylla í þetta tóm sem er uppspretta fortíðarþrárinnar, þar sem eitthvað er stöðugt utan seilingar. Að því marki sem fortíðarþráin kemur fram í verkum Karoline Sætre og Rannveigar Jónsdóttur er það ekki endilega sem rekjanleg þrá eftir því sem verið hefur, heldur sem fortíðarþrá í upprunalegri merkingu hugtaksins: Heimþrá – og ekki heimþrá í þeim skilningi að hún þurfi að verða erfið byrði eins og oft er talað um hana, heldur sem drifkraftur til að uppgötva uppá nýtt; til að rannsaka og kafa í uppruna sinn til að geta skilið þetta allt.‘‘ – Útdráttur úr Floating in a memory, texta fyrir sýninguna eftir Simen Utsigt Stenberg.

Rannveig og Karoline kynntust þegar þær voru samtímis við MA-nám í Listaháskólanum í Malmö. Þær unnu fyrst saman að sýningu í galleríinu DELFI í Malmö í október 2018, sem bar heitið Darker fields of blue, the snow is where the shadow lies. OBSERVE ABSORB er framhald af þeirri sýningu.

Rannveig Jónsdóttir (1992 – ) leggur áherslu á hljóð og skúlptúr í verkum sínum þar sem hún skoðar eigin reynslu út frá samtali rannsókna og skáldsskapar til að skapa hljóð- og efnis-innsetningar. Rannveig lauk námi frá sjónlistardeild Myndlistarskóla Reykjavíkur (2014), síðar BA námi frá Listaháskóla Íslands (2017) og nýlega MFA námi frá Listaháskólanum í Malmö. Rannveig hefur tekið þátt í sýningum bæði hér á landi og erlendis.

Karoline Sætre (1992 – ) er norsk listakona sem býr og starfar í Oslo. Hún lauk BA-prófi frá Listaháskólanum í Þrándheimi (2016) og MA frá Listaháskólanum í Malmö (2019). Áhugi hennar beinist að skjalageymslum, kortum, bókum, höndum, tungumálinu – hún vinnur oft með fundið efni og textabrot sem útgangspunkt fyrir innsetningar sem snúast um sjálfsmynd, að tilheyra, samband okkar við náttúruna og hversdagslega hluti sem við söfnum í kringum okkur.

Sýningin er styrkt af Norsk Kulturråd.

DEILA