Samkomulagið um stjórnun fiskveiða og vísindasamstarf í Norður-Íshafi

Gestur í Vísindaporti vikunnar er Lauren Fields. Í erindi hennar verður sjónum beint að sögulegu samkomulagi um stjórnun fiskveiða og vísindasamstarfi í Norður-Íshafi (e. CAO Fisheries Agreement). Samkomulagið sem gildir í 16 ár var undirritað síðla árs 2017 og felur það í sér að þær tíu þjóðir sem eru aðilar þess skuldbinda sig til að heimila ekki veiðar á samningssvæðinu fyrr en vísindarannsóknir hafa lagt grunn að sjálfbærri stjórnun þess. Skoðað verður hvort það er yfirleitt raunhæft og árangursríkt að stunda þar fiskveiðar í atvinnuskyni. Lauren mun í erindi sínu fjalla um atriði þessa samkomulags, núverandi strandveiðar í Íshafi og göngur fiskstofna inn í Norður-Íshaf.

Lauren Fields lauk doktorsgráðu í lífeðlisfræði Suðurskautsfiska 2015 frá Illinois-háskóla. Hún hafði áður lokið BA-gráðu í líffræði og miðaldafræðum. Lauren vinnur nú hjá bandarísku hafrannsóknarstofnunni (U.S. National Oceanic and Atmospheric Administration) sem sérfræðingur á sviði utanríkismála og með eftirliti á sjávarfangi. Hún býr nú tímabundið á Íslandi sem Fulbright-styrkþegi við Háskólann á Akureyri þar sem hún er að afla sér þekkingar um íslenska fiskveiðistjórnun, skoða framtíðar aðferðir og möguleika í Norður-Íshafi.

Vísindaportið er föstudaginn 4. október og er opið öllum og fer fram kl. 12:10-13 í kaffistofu Háskólaseturs. Erindið verður að þessu sinni flutt á ensku. Verið velkomin.

DEILA