Myndlistarfélagið Gróska með sýningu í sal Listasafnsins Ísafirði

Verk eftir Þóru Einarsdóttur.

Fjórir félagsmenn Grósku, félags myndlistarmanna í Garðabæ opna myndlistarsýningu laugardaginn 19. október nk. kl. 14 í sal Listasafns Ísafjarðar í Safnahúsinu á Ísafirði. Sýningin mun standa yfir dagana 19. október – 16.nóvember og verður hún opin á opnunartímum hússins, virka daga kl. 12-18, laugardaga kl. 13-16.

Einkenni sýningarinnar er fjölbreytileiki þar sem listamennirnir vinna verk sín í ólíka miðla auk þess sem hugmyndaflæði verkanna er afar ólíkt.

Verk Gunnellu Ólafsdóttur eru nýlega unnin olíumálverk á striga. Myndefnið í verkum hennar er sótt til Ísafjarðar og er áhugavert að sjá hvernig hún nær að flétta það saman við þá ævintýragleði sem er ríkjandi í verkum hennar.

Verk Laufeyjar Jensdóttur einkennast af fjölbreytileika þar sem hún nýtir sér  möguleikann sem felst í því að vinna verk sín í ólíka miðla.  Inntak þeirra sækir hún í nútíma veruleika sem og heimsókn sína til Ísafjarðar í sumar.

Lilja Bragadóttir sýnir verk unnin með akríl og blandaðri tækni á striga. Á þessari sýningu hennar er myndefnið ólíkar litríkar konur sem efalítið hafa allar sína sögu að segja.

Verk Þóru Einarsdóttur eru olíumálverk á striga og sækir hún sitt myndefni meðal annars í fjörusteinana og eyðibýli á Vestfjörðum.

Þær eiga það sameiginlegt að hafa starfað í myndlistinni til fjölda ára og hafa tekið þátt í fjölmörgum sýningum hérlendis sem og erlendis. Verða þær allar viðstaddar á sýningaropnun og þætti þeim ánægjulegt að sem flestir  myndu kíkja við.

DEILA