Hvalárvirkjun: þingmenn styðja virkjunina. Sveitarfélögin einhuga.

Frá fundinum í gær. Mynd: Halla Signý Kristjánsdóttir.

Á fundi Fjórðungssambands Vestfirðinga með þingmönnum kjördæmisins, sem haldinn var á Flókalundi í dag lögðu talsmenn sveitarfélaganna mikla áherslu á úrbætur í orkumálum og kölluðu eftir Hvalárvirkjun segir Hafdís Gunnarsdóttir, formaður Fjórðungssambandsins í samtali við Bæjarins besta. Hafdís segir að afstaða sveitarfélaganna hafi verið mjög samhljóða. Þá hafi þingmenn kjördæmisins ýmist lýst yfir stuðningi við Hvalárvirkjun eða stuðningi við Rammaáætlunina, en Hvalárvirkjun er þar í nýtingarflokki. Samkvæmt þessu er eindreginn stuðningur við virkjunaráformin bæði meðal sveitarstjórnarmanna og alþingismanna kjördæmisins. Allir þingmenn kjördæmisins voru á fundinum að frátaldri Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur, iðnaðarráðherra sem var bundin við skyldustörf erlendis.

 

Þ-H leiðin að koma

Hafdís Gunnarsdóttir sagði einnig að fram hefði komið að Reykhólahreppur muni afgreiða  aðalskipulagsbreytingarnar vegna Vestfjarðavegar 60 á fundi í næstu viku. Segist hún gera ráð fyrir að Þ-H leiðin verði  samþykkt  og Vegagerðin muni þá geta sótt um framkvæmdaleyfi í framhaldinu.

DEILA