Hörður knattspyrnufélag 100 ára : afmælisávarp

Knattspyrnufélagið Hörður varð 100 ára í vor og hefur þess verið minnst með ýmsum hætti á árinu. Einn atburðurinn sem haldinn var fyrir rúmri viku var glímumót, en Hörður stóð lengi fyrir glímu á Ísafirði. Við það tækifæri flutti Jens Kristmannsson, fyrrverandi formaður Harðar  ávarp og rakti nokkra þætti í þessari sögu.

 

Félagið var stofnað 27.maí 1919, var stofnfundurinn haldinn í Sundstræti 41, áður hafði verið haldinn undirbúnings-fundur í Sundstræti 33.

Þegar við stöldrum við á þessum merku tímamótum, í sögu félagsins, sem verður að telja 100 ára afmælið, vaknar sú spurning fyrst í huga manns, að líklega hefur þeim 12 vösku drengjum, sem stofnuðu félagið, ekki komið til hugar að 100 árum seinna væri verið að fagna stofnun þess og því sem þeir gerðu til framdráttar íþrótt sinni. Ég átti því láni að fagna þegar haldið var upp 50 ára afmæli félagsins að þá voru tveir af stofnendum félagsins enn á lífi og sögðu ýmislegt um aðdragandann að stofnun félagsins.

Í upphafi var einungis æft og leikin knattspyrna á vegum félagsins, en með árunum fjölgaði íþróttagreinum, sem æfðar voru og keppt í á vegum félagsins. Má þar m.a. nefna: Frjálsar íþróttir, handbolta skíði fimleika, sund og glímu.   Til gamans má geta þess að við vígslu Laugardalsvallar í Reykjavík 1958 sýndi fimleikaflokkur héðan undir stjórn Bjarna Bachmann. Hópurinn var skipaður 9 mönnum auk þjálfara og voru 8 þeirra Harðverjar. —- Við getum líka státað af því héðan hafa komið landsfrægir frjáls íþróttamenn og skíðamenn má þar m.a. nefna: Guðmund Hermannsson, Finnbjörn Þorvaldsson, Þorstein Löve, bræðurna Hauk og Jón Karl Sigurðssyni, Jakobínu Jakobsdóttur,Mörtu B. Guðmundsdóttur og Karólínu Guðmundsdóttur að ógleymdri landsliðkonunni í handbolta Steinunni Annasdóttur, ég gæti talið upp mun fleiri en einhverstaðar verður að stoppa.

Nú erum við komin á Glímumót ekki í fyrsta sinn hér á Ísafirði.

Fyrsta Glímumótið eða sýningin, sem haldin var hér á Ísafirði á vegum Ungmennafélags Ísafjarðar var haldið 31.jan. 1908 þar glímdum 12 manns       Á fyrri hluta síðustu aldar var glíma töluvert stunduð hér á norðan verðum Vestfjörðum og mörg mót haldin og þá keppendur frá Ísafirði, Hnífsdal, Suðureyri og Bolungarvík. Glímu iðkun lá svo niðri hér í bæ um nokkurt skeið á 4. áratug síðustu aldar, eða þar til að Hörður tók hana uppa á sína arma 1943.

Árin 1943 0g 1944 voru haldin hér glímunámskeið og var kennari á þeim Kjartan Bermann Guðjónsson, úr Ármanni voru þátttakendur á fyrra námskeiðinu 19   Að loknum þessum námskeiðum var nokkuð um Glímu iðkun hér og í nágrenni okkar sérstaklega í Bolungarvík. Glímu iðkun lá svo niðri hér um slóðir í nokkra áratugi eða allt til þess að Hermann heitin Níelsson flytur að nýju í bæinn um síðustu aldarmót og verður formaður Harðar.   Hermann var félagi í Herði frá barnsaldri stundaði æfði og þjálfaði hinar ýmsu íþróttagreinar aðallega þó knattspyrnu

Hermann var mikill félagsmálamaður, sat í stjórn Harðar í fjölda ára, en flutti svo á austfirðina að loknu námi í Íþróttakennaraskóla Íslands, þar var hann og ötull liðsmaður íþróttahreyfingarinnar m.a. var hann framkvæmdarstjóri ÚÍA um árabil.

Þegar Hermann kom svo aftur hingað heim, varð hann fljótlega formaður Harðar, hóf þá að kenna og þjálfa ungmenni bæði drengi og stúlkur.   Hann kynnti Glímuna, sem íþrótt á nýjan leik fyrir ísfirðingum og munum við njóta þess í dag. —-   Keppnin í dag hefst á glímu barna — Barnamót og fer vel á því að það sé minningarmót um Hermann Níelsson.

Við Harðverjar erum ákaflega stoltir og þakklátir Glímusambandi Íslands fyrir þann heiður að okkur sé falið að sjá um fyrstu umferð í meistaramóta röð Íslands.

Hermanni tókst m.a. að endurvekja Glímu um Vestfjarðabeltið árið 2006, en þá hafði ekki verið keppt um það frá því 1933.

Hermann var auk þessa prímusmótor í ýmsu er snéri að öðrum íþróttagreinum og eigum við Harðverjar honum margt að þakka.

Vestfjarðabeltið var smíðað hér á Ísafirði árið 1907- 1908 af Helga Sigurgeirssyni, gullsmið, fyrst var keppt um hann 1912. Gripur þessi er hin veglegasti. Svona til fróðleiks ef menn skoða gripinn þá er myndin á beltinu af Þormóði Kolbrúnarskáld.

 

Kæru áheyrendur !

Nú er mál að linni, ég gæti eflaust haldið áfram og tímt ýmislegt til úr sögu Harðar og íþrótta hér í bæ en er sannfærður um að þú áheyrandi góður vilt frekar horfa og glímukapparnir vilja frekar glíma.

Hér skal því staðar numið, með til vitnun í skáldið Grím Tomsen, en hann sagði m.a. í kvæðinu „Bændaglíma“.

„Gaman þótti gumum fyrr,

glímubrögð að þreyta,

öldar voru heilbrigðir,

og holt er orku´að neyta,“

 

Nú skulum við njóta þess að horfa á ekta íslensk fangbrögð.

 

Takk fyrir mig.

Jens Kristmannsson.

DEILA