Fjórðungsþing leggst gegn lögþvingaðri sameiningu sveitarfélaga

Fjórðungsþing Vestfirðinga ályktaði gegn lögþvingun á sameiningu sveitarfélaga. Tillagan var naumlega samþykkt með atkvæðum þingfulltrúa með 50,8% atkvæðamagns á bak við sig. Í atkvæðagreiðslunni riðluðust fylkingar í Ísafjarðarbæ bæði hjá meirihluta og minnihluta í bæjarstjórninni.

Fyrir þinginu voru lagðar tvær tillögur frá Bolungavík og Súðavík þar sem lagst var alfarið gegn lögþvingun við sameiningu. Þær voru sameinaðar í eina tillögu í meðförum Fjórðungsþingsins og allsherjarnefnd þingsins lagði til að sú tillaga yrði samþykkt. Arna Lára Jónsdóttir, Ísafirði og fleiri voru hins vegar á móti og vildu fella ályktunina.

Ályktunin er svohljóðandi.

„4. haustþing Fjórðungssambands Vestfirðinga haldið á Hólmavík 2019 leggst alfarið gegn lögþvingaðri sameiningu og þeirri aðferðafræði sem boðuð er til að knýja á um sameiningu minni sveitarfélaga. Þingið hvetur ráðamenn til að virða hagsmuni og sjálfsákvörðunarrétt sveitafélaga í eigin málefnum. Sameining sveitarfélaga getur verið ákjósanleg og skynsamleg en slíkt verður að gerast á forsendum þeirra sem um ræðir.“

 

 

DEILA