Fjármálaráðstefna sveitarfélaga stendur yfir

Þessir Vestfirðingar eru fulltrúar fyrir Bolungavík. Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri og Guðbjörg Hafþórsdóttir. Sá yngsti er ekki enn kominn í bæjarstjórn, en er samt mættur!

Hin árlega fjármalaráðstefna sveitarfélaga hófst í gær í Reykjavík og lýkur síðdegis í dag. Á ráðstefnunni eru samankomnir sveitarstjórnarmenn af öllu landinu og ræða þau mál sem efst ber á baugi í sveitarstjórnarmálum. Megintilgangur ráðstefnunnar er að gefa sem best yfirlit yfir efnahagsmálið og forsendur fyrir næsta ár sem sveitarstjórnir þurfa að hafa við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs.

Bæði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, sveitarstjórnarráðherra flytja ávörp á ráðstefnunni.  Katrín Ólafsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík flutti erindi um stöðu efnahagsmála. Sigurður Á. Snævarr, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga gaf yfirlit um afkomu sveitarfélaga og horfur til næstu ára.

Rætt var meðal annars um hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og kynntar voru hugmyndir Austfirðinga um heimastjórn sem gæti verið lykill að áhrifum fámennari byggðum innan sameinaðra sveitarfélaga.

Í dag verða málstofur um fjármál sveitarfélaga, rekstur þeirra, velferðar- og fræðslumál og umhverfismál.

Gunnlaugur Júlíusson frá Móbergi á Rauðasandi er einn af  Vestfirðingunum á ráðstefnunni sem gerir það gott á nýjum stað, en Gunnlaugur er bæjarstjóri í Borgarbyggð.
Annar Vestfirðingurinn sem er í útrás er Ísfirðingurinn Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Árborg. Hér er hann að fagna því að tíu þúsundasti íbúinn í Árborg er á næstu grösum. Íbúum Árborgar hefur fjölgað um 1000 síðan Gísli tók við. Á Ísafirði hefur fjölgað um 1.
Vestfirðingar eru víða. Þriðji Vestfirðingurinn sem myndatökumaður rakst á er Valdimar Birgisson frá Ísafirði. Hann  er bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ.
DEILA