Farskóli safnamanna að Hnjóti

Ráðstefnugestir á Hnjóti.

Þann 2. október sl. var Farskóli FÍSOS (Félags íslenskra safna og safnmanna) settur á Patreksfirði í 31. skiptið. Um er að ræða árlega ráðstefnu safnafólks af öllu landinu sem ferðast um landið og skipta söfnin með sér gestgjafahlutverkinu, sem í ár var í höndum Minjasafns Egils Ólafssonar að Hnjóti. Einnig hefur ráðstefnan ferðast þrisvar sinnum út fyrir landsteinanna, til Glasgow, Berlínar og Dublin.

Yfirskrift ráðstefnunnar var að þessu sinni netagerð (networking) og er tilgangur hennar fyrst og fremst símenntun starfsfólks safna og að hrista saman hópinn með því að hittast til skrafs og ráðagerða einu sinni á ári. Með því þéttist hið samofna net safna og safnafólks á Íslandi, okkur og samfélaginu til heilla.

Ráðstefnan stóð yfir í þrjá daga og voru þeir nýttir vel með vinnu á fjölbreyttum málstofum þar sem m.a. var fjallað um árangur í safnastarfi, flutning á safnkosti, ýmsar miðlunarleiðir, varðveislu báta, safnaklasa og margt annað. Málstofurnar voru haldnar á þremur stöðum í þorpinu og var rúta sem ferjaði fólk í plássið nýtt sem strætisvagn á milli staða. Tveimur gestafyrirlesurum var boðið á ráðstefnuna. Annars vegar hagfræðingnum Dr. Marie Briguglio frá Háskólanum á Möltu. Hennar kenningar ganga útfrá því að söfn passi ekki alltaf inn í mælingar sem tengjast vergri landsframleiðslu (GDP) og hagspám og því passi betur að mæla hagræn áhrif útfrá vellíðan og hamingju. Hins vegar kom vinnusálfræðingurinn Eyþór Eðvarðsson frá Þekkingarmiðlun og fjallaði um streitu og kulnun í starfi og einkenni þess.

Þá var farið í vettvangsferðir um svæðið þar sem boðið var uppá heimsóknir í Listasafn Samúels Jónssonar í Selárdal og Minjasafnið að Hnjóti.

Inga Hlín Valdimarsdóttir, forstöðumaður Minjasafns Egils Ólafssonar og farskólastjóri sagði það samhljóma álit ráðstefnugesta að þessi vettvangur sé vel til þess fallinn að blása ferskum blæ í safnastarf á Íslandi.

Ráðstefnuhaldið á Patreksfirði færði líf í bæinn utan háannatíma og var góð innspýting inn í verslun og ferðaþjónustu.

Myndir: Hörður Geirsson, Minjasafninu á Akureyri.

Inga Hlín valdimarsdóttir forstöðumaður Minjasafnsins að Hnjóti.

DEILA