Alþingi: Náttúrustofur fái fleiri svæðisbundin verkefni

Starfsmenn fornleifadeildar NAVE í Arnarfirði. Mynd: nave.is

Í síðustu viku var á Alþingi mælt fyrir þingsályktun um náttúrustofur. Flutningsmenn vilja að kannað verði hvort hagkvæmt er að náttúrustofur taki formlega að sérfleiri  svæðisbundin verkefni en þær hafa nú með höndum.

Lagt er til að umhverfis- og auðlindaráðherra skipi starfshóp til að meta reynsluna af náttúrustofum og einnig að móta leiðir til að styrkja samstarf náttúrustofa og stofnana ríkisins.

Tillagan er endurflutt en hún fékk jákvæðar umsagnir í fyrra sinnið. Í greinargerð með tillögunni segir að starfandi séu átta náttúrustofur  á landinu. Rúm 20 ár eru síðan fyrsta stofan hóf starfsemi sína, en það var á Austurlandi.  

Náttúrustofa Vestfjarða hefur verið starfandi síðan 1997 og er rekin af sveitarfélögunum með stuðningi ríkisins.

Ellefu þingmenn úr fimm flokkum flytja málið. Fyrsti flutningsmaður er Líneik Anna Sævarsdóttir og meðal flutningsmanna eru tveir þingmenn kjördæmisins Halla Signý Kristjánsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir.

 

 

 

 

 

 

DEILA